Úrvalsdeildarsæti í húfi í Höllinni í kvöld

Það er mikið undir í leik Þórs og Vals í kvöld er liðin mætast í Íþróttahöllinni á Akureyri kl. 19:15, í oddaleik í úrslitum 1. deildar karla í körfubolta. Sigurliðið tryggir sér sæti í úrvalsdeildinni næsta vetur ásamt Þór Þorlákshöfn. Þegar farið er yfir viðureignir liðanna í vetur vekur það athygli hversu illa heimavöllurinn nýtist liðunum. Fjórum sinnum hafa liðin mæst, tvisvar í deild og nú tvisvar í úrslitakeppninni, og alltaf hefur það liðið unnið sem spilar á útivelli.

 

Tölfræðin er því ekki með Þórsurum í kvöld sem spila á heimavelli hvað það varðar en tölfræðin hefur ekki unnið leiki hingað til.

Valur vann fyrsta leikinn nokkuð sannfærandi á Akureyri sl. föstudag, 91:82, en Þórsarar knúðu fram oddaleik með dramatískum útisigri í Vodafonehöllinni sl. mánudag þar sem norðanmenn unnu með þriggja stiga mun, 76:73, eftir að hafa verið undir mest allan tímann.

Það eru því allar líkur á hörkuleik í Höllinni í kvöld en leikurinn hefst sem fyrr segir kl. 19:15.

Nýjast