Úrslitin ráðast í kvöld

Úrslitaleikurinn í íshokkí karla fer fram kl. 19:15 í kvöld í Skautahöll Akureyrar, en þá mætast Skautafélag Akureyrar og Björninn í fimmta leik liðanna í baráttunni Íslandsmeistaratitilinn. Staðan í einvíginu er 2:2 og því þarf oddaleik til þess að knýja fram sigurvegara. Einvígi liðanna hefur verið hin mesta skemmtun og Björninn komið virkilega á óvart með góðri spilamennsku og eflaust hafa fáir reiknað með að einvígi þessara liða færi í fimm leiki eins og hefur komið á daginn.

Vikudagur sló á þráðinn til Gunnars Guðmundssonar, fyrirliða Bjarnarins, og Sigurðar Sveins Sigurðssonar, leikmanns SA og leikreyndasta mann úrslitakeppninnar, til þess að fara yfir málin og spá í spilin fyrir kvöldið.

„Leikurinn leggst rosalega vel í mig og það verður gaman að takast á við þetta,” segir Gunnar Guðmundsson fyrirliði Bjarnarins. „Það eru allir í liðinu fullkomlega tilbúnir í þetta og við ætlum okkur alla leið. Við erum ekkert smeykir við að fara norður og ef við fáum fulla höll á móti okkur að þá eykur það bara á hungrið,” segir Gunnar. Björninn hefur komið skemmtilega á óvart í úrslitakeppninni og hefur sýnt og sannað að það er enginn tilviljun að þeir séu komnir þetta langt. „Við erum búnir að vera mjög sterkir en kannski helst að reynsluleysið hafi mest verið að há okkur. Við verðum að passa það að halda okkar tempói út leikinn í kvöld og ekki leyfa SA að draga okkur á sinn hraða. Við verðum að halda hraðanum uppi og með okkar hraða eiga þeir ekki sjens í okkur. Svo er númer eitt, tvö og þrjú að við höldum okkur inn á ísnum og látum ekki reka okkur útaf,” segir Gunnar.

Sigurður Sveinn Sigurðsson leikmaður SA er einn leikreyndasti íshokkí maður landsins, ef ekki sá leikreyndasti, og hefur leikið ófáar úrslitakeppninnar í gegnum tíðina. Hann segir að Björninn hafi komið sér á óvart með góðri spilamennsku í úrslitakeppninni og hann hafi ekki átt von á því að til fimmta leikjarins kæmi. „Þeir eiga hrós skilið fyrir sinn árangur og þeir hafa komið öllum á óvart. Þeir komu fyrst á óvart með að komast í úrslitakeppnina og svo hafa þeir komist lengra í úrslitakeppninni en flestir áttu von á.” Eins og áður sagði hefur Sigurður leikið ófáar úrslitakeppnirnar og hann segir keppnina í ár vera eina af þeim eftirminnilegri hingað til. „Þetta er klárlega ein af skemmtilegustu úrslitakeppnunum og jafnast alveg á við 2001 keppnina.” Hann segir ekkert annað koma til greina en að klára mótið með sigri á heimavelli í kvöld og reiknar með góðri mætingu í Skautahöllina. „Það verður allt brjálað í Höllinni í kvöld og við ætlum okkur að klára þetta á heimavelli fyrir framan okkar áhorfendur og reynslan kemur til með að vega þungt í kvöld.” Mikið hefur verið tala um í fjölmiðlum undanfarið að SA sé með „gamalt” lið og að þeir séu ekki í jafn góðu líkamlegu formi og hið unga lið Bjarnarins og þreyta gæti orðið Akureyringum að falli. Sigurður blæs á þá umræðu. „Ég er orðinn svolítið þreyttur á þeirrri umræðu og við erum klárlega ekki í síðra formi en þessir guttar. Við sýndum það alveg í leiknum á mánudaginn að við erum alveg í sama leikformi og þeir og við höfum auk þess reynsluna til viðbótar.”

Björninn mun fá sinn stuðning í kvöld þrátt fyrir að leika á útivelli, en stuðningsmenn liðsins muni fylgja þeim norður í flugvél, rútu og einkabílum og munu hvetja sína menn áfram í kvöld. Það má því búast við hörkustemmningu í Skautahöllinni í kvöld. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni N4 og hefst hún kl:18:30. N4 næst á rás 15 eða 29 á Digital Ísland. Þá verður leikurinn einnig sýndur beint á Netinu á http://www.n4.is/ og á heimasíðu íshokkísambands Íslands http://www.ihi.is/   

Nýjast