Úrslitakeppnin í N1-deild karla hefst í kvöld

Úrslitakeppnin í N1-deild karla í handbolta hefst í kvöld en í undanúrslitum mætast annars vegar Akureyri og HK og hins vegar FH og Fram. Þau lið sem fyrr vinna tvo leiki mætast í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Fyrsti leikur Akureyrar og HK fer fram í Íþróttahöllinni á Akureyri og hefst kl. 19:30. Norðanmenn hafa haft gott tak á HK liðinu í vetur. Liðin hafa mæst alls fjórum sinnum og alltaf hefur Akureyri farið með sigur af hólmi.

„Mér líst mjög vel á þessa rimmu og það skiptir í raun engu máli hvaða lið maður hefði mætt því þetta eru allt góð lið sem eru komin í undanúrslitin,” segir Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar. „Úrslitin í deildinni í vetur hafa sýnt það að maður þarf að hafa fyrir öllum sigrum og þó að við höfum unnið HK fjórum sinnum í vetur að þá voru þrjár af þessum viðureignum mjög jafnar. Þannig að ég býst við hörkuleikjum. Það getur verið gríðarlega mikilvægt að hafa heimaleikjaréttinn þegar upp er staðið og það er mjög mikið atriði að byrja einvígið vel," segir Atli.

„Þetta leggst bara vel í okkur og við erum bara nokkuð brattir,” segir Kristinn Guðmundsson annar þjálfara HK. „Við erum að fara að spila við deildarmeistarana og höfum tapað fyrir þeim fjórum sinnum í vetur en teljum okkur samt geta strítt þeim verulega. Þetta snýst líka um að njóta þess að berjast fyrir sínu og reyna að gera það eins vel og hægt er. Við erum komnir í úrslitakeppnina og ætlum að njóta þess að spila. Ef við komumst áfram verður það frábært og það verður líka magnað að spila fyrir framan troðfulla Höllina fyrir norðan,” segir Kristinn.

 

Nánar er rætt við þá Atla og Kristinn í Vikudegi í dag.

Nýjast