Úrbætur á fráveitu fái algjöran forgang

Veruleg skólpmengun er meðfram allri strandlengjunni á Akureyri.
Veruleg skólpmengun er meðfram allri strandlengjunni á Akureyri.

Ráðgert er að setja 400 milljónir króna árlega í fráveitumál á Akureyri á árunum 2013-2015, eða alls 1,2 milljarða króna á þessu þriggja árá tímabili. Jafnframt er gert ráð fyrir því að lækka skuldir bæjarsjóðs á tímabilinu. Þetta kom fram í máli Odds Helga Halldórssonar formanns bæjarráðs, við fyrri umræðu um þriggja ára fjárhagsáætlun, á fundi bæjarstjórnar í vikunni. Bæjaryfirvöld á Akureyri eru meðvituð um nauðsyn þess að ráðast úrbætur í fráveitumálum og var málið m.a. til umræðu við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir þetta ár og við vinnu við þriggja ára áætlunina. Oddur Helgi sagði á fundi bæjarstjórnar að hann hefði rætt við bæjartæknifræðing um að skoða hvaða möguleikar væru í stöðunni, m.a. hvort hægt væri að leggja pípu beint út í sjó, til þess að ekki þurfi að reisa hreinsistöðina strax. Það mál muni skýrast á næstu vikum. Fulltrúar minnihlutans voru sammála um að nauðsynlegt væri að ráðast í framkvæmdir í fráveitumálum.

Alfreð Schiöth framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, sendi bæjaryfirvöldum erindi nýlega þar sem heilbrigðisnefnd skorar á bæjarstjórn Akureyrar að láta úrbætur á fráveitu Akureyrarbæjar fá algjöran forgang í framkvæmdaáætlun yfirstandandi árs. Í bókun heilbrigðisnefndar kemur fram að rannsókn á sjósýnum meðfram strandlengju og hafnarsvæðum Akureyrarbæjar sem tekin voru þann 12. desember sl. sýna verulega og samfellda skólpmengun á öllu svæðinu frá Þórsnesi og að Leiruvegi. Heilbrigðisnefnd skorar á bæjarstjórn að taka málið föstum tökum og leggur þunga áherslu á mikilvægi þess að Akureyrarbær tryggi matvælavinnslum, fóðurgerð, ferðaþjónustu og almennum útivistarhagsmunum í Akureyrarbæ hreint og heilnæmt umhverfi og fullnægi skyldum sínum um fullnægjandi fráveitu til sjávar. Þá mælist heilbrigðisnefnd til þess að hafnarstjórn komi fyrir upplýsingum við höfnina í Sandgerðisbót, t.d. með skilti, um að hafnarsjór í smábátahöfninni sé skólpmengaður og óhæfur til þrifa á bátum og áhöldum.

Alfreð sagði í samtali við Vikudag, að drápstími gerla væri lengri að vetrarlagi en sumarlagi, það sé minni birta og meiri kuldi og þá lifi gerlarnir lengur og ferðist yfir lengra svæði með straumum. “Við höfum verið að taka sýni í gegnum tíðina vor, sumar og haust, í sjó meðfram ströndinni á Akureyri en ekki tekið sýni um hávetur áður. Við vissum að sýni um vetur myndu sína meiri mengun en að hún væri þetta miklu meiri kom á óvart og okkur brá talsvert. Þetta eru mjög há gildi meðfram allri strandlengjunni en við höfum verið að vakta 22 sýnatökustaði öðru hvoru til margra ára. Þessi  niðurstaða í desember sl. er sú versta sem við höfum séð.”

Alfreð segir að þetta ástand sé ekki einvörðungu bundið við Akureyri, sveitarfélög úti á landi séu í vandræðum með þetta verkefni, með nokkrum undantekningum þó, m.a. á Dalvík og Blönduósi.  Hann segir að ástæða sé til hrósa Dalvíkurbyggð fyrir gott framtak í fráveitumálum. “Sveitarfélögin áttu að ljúka verkefninu fyrir árslok 2005, samkvæmt reglugerð en hafa í raun gefið þessu langt nef. Ríkið var með ákveðna fjárhagslega hvatningu, endurgreiddi virðisaukaskatt vegna framkvæmda við úrbætur, en ekki lengur. Akureyri vigtar mjög hátt í tölfræðinni fyrir landbyggðina og svo eru hér miklir hagsmunir. Hér eru stór fyrirtæki í matvælaframleiðslu með rekstur sinn nálægt sjávarsíðunni og á Pollinum er siglingaklúbburinn Nökkvi með sitt frístundastarf. Alla jafna er sjórinn nokkuð hreinn yfir þann tíma sem Nökkvi er með sína starfsemi í gangi en það er til að menn séu að stunda hér sjósund allan ársins hring.”

Alfreð segir að Matvælastofnun hafi gefið það út að ekki megi vera mengandi umhverfi næst matvælaframleiðslunni. Hann segir að svo séu oft miklar kröfur frá matkvælakaupendum, þannig allt geti þetta verið mjög viðkvæmt. “Þetta hefur líka áhrif á ímynd, ferðaþjónustu, útivist og náttúrulega beina fjárhagslega hagsmuni í matvælavinnslu og fóðurgerð. Þetta er því stórhættulegt mál fyrir fyrirtæki og samfélagið í heild og það hefur verið of mikill seinagangur í að koma hlutunum í lag,” sagði Alfreð.

 

 

 

 

 

 

 

 

Nýjast