Sigurður segir að mikið sé að gera á verkstæðinu, enda hafi innflutningur dregist verulega saman. Þar eru smíðaðar innréttingar og fer um helmingur þess sem þar er smíðað út um allt land en annað er selt innan Eyjafjarðarsvæðisins. SS-Byggir er með tvö verkefni, við Giljaskóla og Verkmenntaskólann á Akureyri og lýkur báðum næsta haust. Þá er fyrirtækið að byggja fjölbýlishús með 25 íbúðum við Undirhlíð. Annað hús sömu stærðar á þeim reit er í biðstöðu. Þegar verkefnum við skólana tvo lýkur segir Sigurður að lítið sé framundan og ljóst að ekki sé hægt að skapa atvinnu fyrir alla starfsmenn fyrirtækisins komi ekki til ný verkefni. „Það er mikil deyfð yfir öllu, ætli það endi ekki með að allir verði svæfðir," segir hann.
Bendir Sigurður á að fyrirtækið hafi leitað eftir því frá síðasta hausti að hefja framkvæmdir á Sjallareitnum, þar hafi fjárfestar verið tilbúnir að ráðast í hótelbyggingu, „en það virðist lítill áhugi á að hleypa slíkri framkvæmd af stað," segir hann. Þá nefnir hann að fyrirtækið hafi viðrað hugmyndir um að byggja yfir Glerá, brú og veitingastað og fjárfestar tilbúnir að koma að verkefninu. „Það versta er að fá ekki svör, það er alvarlegast, menn verða að svara af eða á, hvort leyfi fáist en það er einhver tregða í gangi. En við reynum auðvitað að skapa okkur verkefni og halda sem flestum í vinnu, það þýðir ekki annað," segir Sigurður.