Upplýsingatæknifyrirtækið Skýrr heldur ráðstefnu á Akureyri

Vorráðstefna Skýrr verður haldin á Hótel Kea á Akureyri föstudaginn 6. maí nk. og hefst kl. 13.00. "Ráðstefnan fjallar um allt það sem máli skiptir í upplýsingatækni fyrir atvinnulífið, fyrirtæki og stofnanir, með þeim takmörkunum að um hálfs dags ráðstefnu er að ræða. Þess má geta að ráðstefnan er opin öllum og þátttaka er gestum að kostnaðarlausu," segir Stefán Hrafn Hagalín, forstöðumaður samskiptasviðs Skýrr.  

„EJS sameinaðist Skýrr fyrir hálfu ári og er nú hluti af Skýrr. Hjá Skýrr starfa nú um fjörtíu manns á Norðurlandi og þar af um þrjátíu í öflugu útibúi okkar á Akureyri. Það var því aldeilis kominn tími til að efna til alvöru viðburðar á okkar vegum norðan heiða. Á ráðstefnunni verða sextán fyrirlestrar og fimm þemalínur, sem eru viðskiptalausnir, hagkvæmni, yfirsýn, reynsla og þjónusta. Aðsóknin verður örugglega góð og við stefnum að því að gera þetta að árvissum viðburði," bætir Stefán Hrafn við. Hann kveður Skýrr hafa stækkað hratt á undanförnum tveimur árum með sameiningu Skýrr við Landsteina-Streng, Kögun, Eskil og EJS. „Skýrr sjálft telur nú tæplega fimm hundruð starfsmenn og um 600 manns til viðbótar starfa síðan hjá þremur dótturfélögum okkar: HugAx, Hands í Noregi og Kerfi í Svíþjóð. Skýrr-fjölskyldan telur því um 1100 manns, veltir 24 milljörðum og við erum 9. stærsta upplýsingatæknifyrirtæki Norðurlanda."

„Áætluð dagskrárlok hjá okkur á föstudaginn á Hótel Kea eru annars um klukkan átta og þar með í tæka tíð fyrir úrslitaleik Akureyrar og FH í handboltanum, sem vonandi verður þá. Ég er alinn upp í KA og forstjóri Skýrr, Gestur G. Gestsson, er Hafnfirðingur í húð og hár, en reyndar Haukamaður. Við erum því báðir ansi spenntir fyrir leiknum og það er meðalgóð rauðvínsflaska undir um úrslitin!" segir Akureyringurinn Stefán Hrafn.

Nýjast