Upplýsingar skipta máli

Hilda Jana Gísladóttir.
Hilda Jana Gísladóttir.

Á tímum þar sem ofgnótt upplýsinga  streymir yfir heimsbyggðina þannig að henni liggur við drukknun, þá getur verið erfitt að greina kjarnann frá hisminu. Trúverðugleiki gagna, öryggi í hýsingu þeirra og persónuverndarsjónarmið geta kallast á við vilja til upplýsingamiðlunar, gagnsæi í  stjórnsýslu og virkt íbúasamráð. Tregða við að veita upplýsingar getur skapað tortryggni sem getur síðan skapað vantraust. Ný persónuverndarlög mega því ekki verða til þess að hjá opinberum aðilum skapist tregða við að veita upplýsingar af ótta við lög eða gagnaöryggi. Það skiptir því miklu máli  að vanda til verka þegar það kemur að miðlun upplýsinga.

Greiður aðgangur að upplýsingum

Bæjarstjórn Akureyrarbæjar hefur samþykkt fyrstu upplýsingastefnu sveitarfélagsins. Stefnan er hnitmiðuð og henni fylgja aðgerðir sem uppfæra á árlega með það að markmiði að stefnan sé stöðug í vinnslu og markviss framfaraskref verði stigin. Markmið upplýsingastefnu Akureyrarbæjar er fyrst og fremst að tryggja gagnsæi í stjórnsýslu og að allir sem eiga hagsmuna að gæta hafi greiðan aðgang að upplýsingum um starfsemi sveitarfélagsins. Upplýsingamiðlun á að vera markviss og skýr viðmið þurfa að vera fyrir hendi um svörun erinda sem auðvelda einnig aðhald að stjórnsýslunni. Þar að auki ber Akureyrarbæ skylda til að hafa frumkvæði að miðlun upplýsinga er varða starfsemi sína, stefnu, fjárhag, þjónustu, verklag, reglur, stjórnsýslu, fundagerðir fastanefnda og fylgigögn þeirra, ákvarðanir og forsendur þeirra. 

Eflum íbúasamráð

Markviss og örugg miðlun upplýsinga er grundvöllur gagnlegs íbúasamráðs, en Akureyrarbær og Samband íslenskra sveitarfélaga fengu nú í janúar fimm milljón króna styrk úr jöfnunarsjóði til að efla markvisst íbúasamráð og auka íbúalýðræði. Heimasíða Akureyrarbæjar er mikilvægasta gáttin í miðlun upplýsinga, íbúagáttinn á að verða meginfarvegur fyrir afgreiðslu erinda, Akureyrarbær nýtir samfélagsmiðla til að miðla fréttum og upplýsingum af heimasíðu í því skyni að auka dreifingu og sýnileika. Á þessu ári verður lögð sérstök áhersla á að auka upplýsingagjöf um starfsemi sveitarfélagsins til íbúa, lögð verður áhersla á að kynna íbúagáttina og auka vægi hennar, gera vef- og samfélagsmiðlastefnu, tryggja að öryggiskröfum allra heimasíðna stofnanna Akureyrarbæjar sé fullnægt og taka ákvörðun um smáforrit fyrir þjónustu og upplýsingagjöf sveitarfélagsins. Ég tel að með innleiðingu upplýsingastefnu Akureyrarbæjar séum við að stíga mikilvæg skref til að auka þjónustu við íbúa. 

-Hilda Jana Gísladóttir

Bæjarfulltrúi og formaður stjórnar Akureyrarstofu

 


Athugasemdir

Nýjast