Uppbygging flugvallakerfisins

Njáll Trausti Friðbertsson.
Njáll Trausti Friðbertsson.

Í síðustu viku skilaði starfshópur sem ég veitti formennsku undanfarna 18 mánuði af sér skýrslu undir heitinu: ,,Uppbygging flugvallakerfisins og efling innanlandsflugsins sem almenningssamgangna“. Í starfshópnum sátu einnig Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar og Ingveldur Sæmundsdóttir aðstoðarmaður Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Fyrir starfshópnum lágu tvö stór úrlausnarefni.  Annars vegar að bæta aðgengi íbúa landsbyggðarinnar að miðlægri þjónustu höfuðborgarinnar með þeim hætti að innanlandsflugið standi undir nafni sem almenningssamgöngur. Í almennri umræðu hefur verið talað um ,,skosku leiðina“ í þessu sambandi. Hins vegar sneri seinna verkefnið að því hvernig best væri að standa að viðhaldi og nýframkvæmdum á flugvöllum landsins. Verkefnin eru yfirgripsmikil og verða ekki gerð full skil í stuttri blaðagrein. Hér verður fjallað um þann hluta skýrslunnar sem snýr að flugvöllum landsins.

Sameiginlegt flugvallakerfi

Á Íslandi eru starfræktir fjórir millilandaflugvellir en auk þess er flogið í innanlandsflugi um níu aðra flugvelli.

Starfshópurinn gerir eftirfarandi tillögur sem snúa að því að byggja upp flugvallakerfi í landinu:

1) Frá og með 1.janúar 2020 verði millilandaflugvellirnir, Keflavíkurflugvöllur, Reykjavíkurflugvöllur, Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur skilgreindir sem kerfi flugvalla með sameiginlegum kostnaðargrunni og Isavia ohf. falin fjárhagsleg ábyrgð á rekstri, viðhaldi og uppbyggingu þeirra.

Til að stuðla að fjárhagslegri sjálfbærni flugvallanna, virki sem hvati fyrir Isavia til að auka umsvif á flugvöllunum og til að auka kostnaðarvitund notenda flugvallanna leggur starfshópurinn til að:

2) Þjónustugjöld á millilandaflugvöllunum verði samræmd og hóflegt þjónustugjald á hvern fluglegg sett á til að standa straum af uppbyggingu og rekstri kerfisins. Gjaldið gæti orðið á bilinu 100-300 kr. á hvern fluglegg.

Til að framfylgja þessum tillögum hér að framan þá er lagt til að viðræður samgönguráðuneytisins og Isavia hefjist strax í ársbyrjun 2019 um breytingar á þjónustusamningi sem tekur tillit til nýs fyrirkomulags og þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar eru svo sem að auka tekjustreymi flugvallakerfisins um leið og nauðsynlegu þjónustustigi er viðhaldið. Í komandi viðræðum ríkisins við Isavia verði sett upp áætlun um uppbyggingu flugvallanna sem er til þess fallinn að styrkja millilandaflugið og öryggi þess fyrir landið í heild.

Enn frekar leggur starfshópurinn til eftirfarandi:

Að stefnt verði að því að frá og með 1.janúar 2024 verði millilandaflugvellirnir og aðrir flugvellir í grunnneti hluti af sama flugvallakerfi.

Það eru níu flugvellir í grunnnetinu í dag ásamt millilandaflugvöllunum fjórum:

Bíldudals-, Ísafjarðar-, Gjögur-, Grímseyjar-, Aðalsdals- , Þórshafnar-, Vopnafjarðar-, Hornafjarðar- og Vestmannaeyjaflugvöllur.

Ef þessar hugmyndir ganga eftir þá er komið á flugvallakerfi sem byggir á svipaðri hugmyndafræði og norsk stjórnvöld gera með sína flugvelli í gegnum Avinor, félags sem eru eigu norska ríkisins. Þar er um að ræða sambærilegt eignarhald og íslenska ríkisins á Isavia.


Fjárveitingar til  framkvæmda, bæði stofnkostnað og viðhald, frá 1988 á verðlagi ársins 2017. Um og eftir 2000 kemur toppur í framlögin en þá er verið að endurbyggja flugbrautirnar á Reykjavíkurflugvelli og 2008-2009 er verið að lengja flugbrautina á Akureyri.


Millilandaflugvellirnir og varaflugvallakerfi landsins

Á sama tíma og umferð um Keflavíkurflugvöll hefur margfaldast frá árinu 2010 hefur uppbygging á varaflugvöllum í Reykjavík, Akureyri og Egilsstöðum setið á hakanum. Í skýrslu starfshópsins er þess getið að vaxandi þörf er fyrir nýframkvæmdir á varaflugvöllunum svo sem við gerð aksturbrauta meðfram flugbrautum og að flugvélastæðum verði fjölgað á Akureyri og Egilsstöðum. Einnig er bent á nauðsyn þess að byggðar séu upp nýjar flugstöðvar í Reykjavík og á Akureyri.

Mynd sú sem fylgir með þessar grein segir allt um það ástand sem skapast hefur á undanförnum árum. Frá árinu hafa fjárveitingar til viðhalds og nýframkvæmda í flugvallarkerfi landsins verið skornar við nögl sem aftur hefur leitt til þess uppsöfnuð viðhaldsþörf á flugvöllum landsins utan Keflavíkurflugvallar er talin vera um 2 milljarðar.

Umsögn Icelandair við samgönguáætlun vekur sérstaka athygli. Forráðamenn fyrirtækisins halda því fram að smæð flughlaða og skortur á flugstæðum á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum sé stærsta ögn við öryggi flugs til og frá Íslandi.

Kerfisbreyting og öryggi flugsins.

Skýrsla hópsins boðar breytingu á rekstri flugvalla landsins og því kerfi sem hér hefur verið við lýði.

Vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem komin er upp í málefnum flugvalla landsins er nauðsynlegt að huga að nýjum lausnum til að fjármagna nauðsynlegt viðhald og nýframkvæmdir á flugvöllum landsins.

Leiðarljósið í allri þessari vinnu eru flugöryggi. Hvernig við tryggjum flugöryggi er ekki aðeins spurning um líf og heilsu, heldur einnig stórt efnahagslegt mál fyrir okkur Íslendinga. Flug er og verður veigamikill þáttur í samgöngum á Íslandi og um leið mikilvægur atvinnuvegur og undirstaða ferðaþjónustunnar sem aftur er stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar.

-Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast