Menningarfélag Akureyrar (MAk) hefur sett saman metnaðarfulla menningardagskrá fyrir sumarið. Gert er ráð fyrir uppákomum nær alla daga í sumar og fara þær fram í Menningarhúsinu Hofi klukkan 14:00 og 20:0 á daginn. Dagskráin ber yfirskriftina Menningarsumarið í Hofi eða Summer Events in Hof og er í senn ætluð heimamönnum sem erlendu og innlendu ferðafólki.
Á dagskránni eru bæði leiksýningar og tónleikar. Fyrirferðamesti viðburðurinn er leiksýningin Let´s talk Arctic. Þetta er nýr, íslenskur, gaman- einleikur með sögulegu yfirbragði. Benedikt Karl Gröndal fer með öll hlutverk þeirrar sýningar og bregður sér meðal annars í gervi Helga Magra, Þórunnar Hyrnu og annarra forforeldra okkar. Sýningin fer fram á ensku og verður flutt fimm sinnum í viku í allt sumar.
Þá eru á dagskránni margvíslegir tónleikar sem spanna allt frá íslenskum tvísöng til klassískra verka auk þess sem boðið er upp á dillandi djass og þungt rokk. Það ættu því allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Listamennirnir eru heldur ekki af verri endanum og hlökkum við til að taka á móti Eyþóri Inga, Andreu Gylfa, Sigurði Flosasyni, Valgerði Guðnadóttur, félögum úr Kvæðamannafélaginu Gefjuni og öllum hinum, segir í tilkynningu frá MAk.
Um komandi helgi verður sérstaklega vegleg dagskrá en auk leiksýninganna verða fernir tónleikar á einungis þremur dögum. Elfa Dröfn Stefánsdóttir messósópran og Sólborg Valdimarsdóttir píanóleikari bjóða upp á söngva um ástina og lífið á föstudaginn klukkan 14:00.