Uppáhalds... flugan mín

Guðrún á góðri stundu   Myndir aðsendar
Guðrún á góðri stundu Myndir aðsendar

Þegar kemur að því velja eina flugu úr frumskógi veiðiflugna vandast málið. Ein þeirra hefur þó gefið mér flesta laxa gegnum tíðina og hlýtur því vinninginn að þessu sinni. Sú heitir Sunray Shadow og finnst líklega í flestum veiðiboxum á landinu og þó víðar væri leitað.

Upphaflegur arkitekt þessarar vinsælu laxveiðiflugu var Bretinn Raymond Brooks en hannn hannaði fluguna snemma á sjöunda áratugnum er hann var við  veiðar ásamt konu sinni í hinni sögufrægu laxveiðiá Lærdalselva í Noregi. Titill flugunnar er sóttur í  nafn veiðikofa sem þau hjónin bjuggu í við ána, kallaður Sunray Lodge og því hvernig flugan birtist sem skuggi í vatninu ((shadow). Fluguna hnýtti Raymond sem túbu og notaði til þess svört apahár í langan væng flugunnar, stíf hvít íkornahár til að styðja undir vænginn og smellti síðan páfuglsfönum ofan á allt saman til að gera fluguna meira áberandi. Í dag nota menn annan efnivið í fluguna og ýmsar útfærslur finnast hvað varðar lit, gerð, þyngd ofl.

Það eru vissulega til fallegri og flóknari flugur en Sunrayinn en það er ekki spurt um útlit ef flugan er veiðin. Þegar hún er komin í vatn lifnar hún við og hreyfist fallega þannig að  laxarnir sérstaklega þessir nýgengnu verða brjálaðir í hana. Ef flugan er dregin í yfirborðinu er oft hægt að sjá þegar laxinn tekur því hann kemur upp á yfirborðið og bókstaflega ræðst á fluguna. Flugan hefur ekki hlotið íslenskt heiti svo ég viti en bein þýðing gæti verið „Sólargeisli skuggans“

 Síðasti laxinn sem féll fyrir Sunray shadow flugunni hjá undirritaðri fékkst úr Jökulsá á Dal sem  í daglegu tali er nefnd Jökla. Ég ólst upp á bökkum Jöklu og þykir því býsna vænt um ána. Við hjónin vorum við veiðar á svokallaðri Gauksstaðabreiðu, eigi langt frá æskiheimilinu. Þetta er stór og mikil breiða og við höfðum séð lax stökkva langt útí á

 Gauksstaðabreiðan er stór og mikill veiðistaður

Bóndi minn Árni Jóhannesson veiddi með tvíhendu og náði að kasta lengra og betur á laxinn og var búinn að landa tveimur löxum þegar. Það var því öll pressan á mér. Reynsla mín með tvíhendu var hinsvegar af skornum skammti og þrjóskaðist ég því með einhenduna mína vopnuð margumtalaðri Sunray shadow flugu. Straumurinn á breiðunni var talsverður,botninn grýttur og steinar hálir sem gerði mér lífið leitt. Ég var við það að gefast upp þegar ég sá lax stökkva og það gaf mér byr undir báða vængi.

Ég fikraði mig aðeins lengra útí strauminn og lét vaða vopnuð títtnefndum Sunray Shadow og freistaði þess að koma flugunni fyrir laxinn og viti menn, bang, hann var á. Sá silfurlitaði lét finna vel fyrir sér en eftir talsverða baráttu kom á land spikfeit og björt 76 sm hrygna.

Veiðikonan var að vonum sæl og ánægð og brosti allan hringinn eins og sjá má á myndinni.

Sunray Shadowinn hans Raymons svíkur ekki  :-)

Guðrúnu leiðist ekki á þessari mynd.

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast