Unnið að því að koma starfsemi Skelfélagsins í gang

Jóhannes Már Jóhannesson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Skelfélagsins ehf. í Hrísey en félagið hefur tekið yfir rekstur Norðurskeljar, sem varð gjaldþrota í vetur. Nýir eigendur standa að mestu á bak við Skelfélagið en kjölfestufjárfestar eru Tækifæri og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.  

Einnig stendur að því hópur áhugasamra aðila bæði norðan og sunnan heiða og segir Jóhannes að saman myndi allir þessir aðilar drifkraftshópinn í hinu nýja félagi. Jóhannes er framkvæmdastjóri Skelfélagsins í hálfu starfi en samhliða því mun hann áfram sinna verkefnum tengdum útflutningi á sjávarafurðum. Jóhannes, sem er Akureyringur, mun því flytja norður aftur ásamt fjölskyldu sinni áður en langt um líður. Hann verður með starfsaðstöðu í Hrísey en hyggst einnig koma sér upp slíkri aðstöðu á Akureyri.

"Það er verið að leggja lokahönd á að koma starfseminni í Hrísey í gang á ný. Að ýmsu þurfti að hyggja þar sem Norðurskel hafði verið í kröggum býsna lengi áður en félagið fór í þrot. Við erum vonandi að ljúka við endurnýjun allra tilskilinna leyfa og höfum gert töluvert miklar endurbætur á aðstöðunni í Hrísey og m.a. bætt vinnsluna. Þá erum við farnir að huga að ræktuninni af fullum krafti, sem er forsendan fyrir framtíðinni. Þetta er því allt að detta í gang og við erum þegar komnir með 4-5 stöðugildi og þurfum vonandi að fjölga fólki með hækkandi sól," sagði Jóhannes.

Hann segir að framleiðsluvaran verði áfram markaðssett sem Norðurskel, þótt nafni félagsins hafi breyst. Það hafi verið óumflýanlegt að breyta nafninu eftir gjaldþrotið en áfram verður hægt að nýta það góða orð sem af afurðunum fer. "Það er alveg klárt mál að það fer mjög gott orð af vörunni og hún þótti afbragðsgóð. Þá verða lykilstarfmenn Norðurskeljar áfram hjá okkur og þannig er hægt að halda þekkingunni í félaginu, sem er mikil. Gamla félagið var á ellefta ári þegar það fór í þrot."

Jóhannes segist vonast til að starfsemin verði komin á fulla ferð í næsta mánuði. "Við munum byrja á því að koma okkur í gang á innanlandsmarkaði og hefja jafnframt undirbúning að útflutningi. Vonandi verður útflutningur kominn á skrið þegar líða tekur á sumarið."

Nýjast