Unnið að því að gera úrbætur vegna lyktarmengunar frá verksmiðju Moltu

Starfsmenn Moltu ehf. hafa unnið að því undafarið að gera úrbætur vegna lyktarmengunar frá verksmiðju Moltu á Þveráreyrum í Eyjafjarðarsveit. Lykt sú sem kvartað er undan stafar að líkindum af tvennu. Lykt frá útblæstri úr tromlunum en einnig lykt frá göltunum þar sem moltan er í þroskun utandyra, segir í erindi frá Eiði Guðmundssyni framkvæmdastjóra Moltu.  

Lykt frá útblæstri.
Loftræsing frá tromlum var frá upphafi í ólagi, en það hafði í för með sér að loft streymdi oft út í gegnum losunarsnigla sem liggja frá hverri tromlu út fyrir verksmiðjuhúsið. Til að eyða lykt frá gösum sem myndast í niðurbrotinu í tromlunum er blandað ózoni í útblásturloftið. Loft sem sleppur út um losunarsniglana er hinsvegar ómeðhöndlað og því illa lyktandi.

Lykt frá göltum
Önnur afleiðing lélegrar loftræsingar er sú að moltan verður of blaut þegar hún kemur úr tromlunum enda er talið að um 40% af þyngd massans fari út sem vatnsgufa. Galli á lofræsingunni leiddi til þess að gufan sem átti að blása út komst ekki öll rétta leið og þéttist því inni í tromlunni aftur. Blaut moltan fær ekki nægilegt loft í göltunum og því getur orðið loftfyrt niðurbrot með illa lyktandi gösum sem afleiðingu. Auk þess er moltan væntanlega ekki eins þroskuð og skyldi þegar hún kemur út úr tromlunum.

Úrbætur
Eftir að hafa án árangurs reynt að fá ráðleggingar frá framleiðanda vélbúnaðar réðumst við sjálfir í breytingar á loftræsingunni með þeim árangri að hún virkar nú ágætlega. Það hefur strax í för með sér að moltan verður þurrari og að loft er hætt að streyma út um losunarsniglana. Enn eigum við eftir að skoða hve mikil lyktarmengun er frá eðlilegum göltum á planinu og einnig að sannreyna virkni ózónsins. Við munum því halda áfram að vinna að þessu. Til að koma í veg fyrir áframhaldandi lyktarmengun af þeim göltum sem voru á planinu voru þeir fluttir í burtu. Hafa ber í huga að aukin lyktarmengun fyrir jólin gæti hafa stafað af því að verið var að moka moltunni á bíla, segir í erindi Eiðs.

Nýjast