Unnið að endurskipulagningu á félaginu Góðvinir HA

Nú stendur yfir endurskipulagning á félaginu; Góðvinir Háskólans á Akureyri og er markmiðið að auka vægi þess innan háskólasamfélagsins og út á við og gera það virkara en verið hefur. Málið var kynnt á fundi bæjarráðs Akureyrar í gær og jafnframt var óskað eftir því að bærinn skipaði einn fulltrúa í fulltrúaráð félagsins. Bæjarráð samþykkti að skipa Hermann Jón Tómasson bæjarstjóra í fulltrúaráðið.

Markmið Góðvina Háskólans á Akureyri er annars vegar að auka tengsl skólans við fyrrum nemendur sína og aðra þá sem bera hag skólans fyrir brjósti, hins vegar að styrkja og efla Háskólann á Akureyri eftir fremsta megni, fjárhagslega og á annan hátt. Skal þess gætt að félagsmenn hafi greiðan aðgang að starfsemi og þjónustu skólans og að tekjum samtakanna sé ráðstafað til uppbyggingar lærdóms og rannsókna við Háskólann á Akureyri. Góðvinir heiðra árlega við brautskráningu einn nemanda frá hverri deild. Verðlaunin eru gullnælur sem Kristín Petrea Guðmundsdóttir, gullsmiður hannaði sérstaklega fyrir félagið. Þann 10. júní 2006 efndu Góðvinir í fyrsta skipti til endurfunda í samstarfi við FSHA og er það nú orðin árlegur viðburður. Mörg fyrirtæki hafa stutt við Góðvini á einn eða annan hátt og er það markmið stjórnar að efla enn frekar fyrirtækjatal félagsins. 

Nýjast