Auk dagskrárliða á borð við viðurkenningar m.a. fyrir besta matjurtagarðinn,upplestur úr nýju eintaki Jóns Hjaltasonar af Sögu Akureyrar
sem væntanleg er innan skamms, fagra tóna kammerkórsins Hymnodiu, ljóðaupplesturs og líflegra tóna hljómsveitarinnar Manhattan svo dæmi
séu tekin, þá er mun Lystigarðurinn taka á sig óvenju skemmtilega mynd vegna sýningarinnar List í garðinum sem opnuð verður þetta
kvöld. Þar sýnir hverskyns hæfileikafólk af Norðausturlandi ýmiskonar verk úr fjölbreyttum efnivið en öll eiga verkin það
sameiginlegt að þola dyntótta íslenska veðráttu enda er verkunum ætlað að vera í garðinum eitthvað fram á haustið.
Á laugardeginum 29. ágúst halda herlegheitin áfram með dagskrárliðum á borð við friðarsiglingu eikarbátsins Húna II
þar sem leikskólabörn af Hólmasól kasta flöskuskeyti með friðarboðskap út í hið stóra Atlantshaf og
Skógræktarfélag Eyfirðinga býður upp á skógargöngu á Eyrinni og ketilkaffi að göngu lokinni. Þeir sem vilja vita hvar
blómálfar, englar, dísir, dvergar og aðrar verur halda sig ættu ekki að missa af göngu í Lystigarðinum og Sigurhæðum þar sem
þær Erla Stefánsdóttir og Kristín Jónsdóttir kynna nýtt Huliðsheimakort Akureyrar. Í Listagilinu verður líf og
fjör enda víðast hvar opnanir sýninga. Í Listasafninu getur að líta bestu ljósmyndir Íslandssögunnar valdar af Einari Fal
Ingólfssyni ljósmyndara og í Ketilhúsinu og Deiglunni verður norræn og alþjóðleg hátíð þar sem viðfangsefnið er
Kreppa og kærleikur - Nýjir Íslendingar í nýju landi. Á Glerártorgi verða einnig opnaðar sýningar og í
Amtsbókasafninu verður málþing og sýning um hjónin Harald Níelsson og Aðalbjörgu Sigurðardóttur og er yfirskriftin Trúmaður
á tímamótum. Í Samkomuhúsinu verða fluttar drama og grínóperur og eru flutningurinn í höndum Alexöndru Chernochovu,
Michaels Jóns Clarke og Daníels Þorsteinssonar. Á laugardagskvöldinu verða í Gilinu stórtónleikar veitingastaðarins RUB 23 og
í Akureyrarkirkju ætlar hljómsveitin Orkustöðin að spila. Að tónleikunum loknum sýnir sig óhefðbundinn sirkus; Sannleikur og
rúsínan í pylsuendanum er gjörningur þar sem brjóstahöld af öllum stærðum og gerðum fá nýtt hlutverk og þar spilar
eikarbáturinn Húni II stórt hlutverk. Þetta er aðeins brotabrot af dagskrá Akureyrarvöku í ár en hana er að finna í heild sinni
á www.visitakureyri.is, auk þess sem henni verður dreift í öll hús bæjarins næsta miðvikudag.