Undirbúa flutning á nýju embætti lögreglustjóra
Búið er að birta reglugerð um lögregluumdæmi lögreglustjóra en sú breyting verður á um áramótin að umdæmum lögreglustjóra fækkar og þau stækka, jafnframt því sem skilið verður á milli sýslumanna og lögreglustjóra þar sem sýslumaður hefur jafnframt verið lögreglustjóri. Lögreglustjóri í nýju umdæmi á Norðurlandi eystra verður Halla Bergþóra Björnssdóttir, sem nú er settur sýslumaður á Akranesi.
Umdæmin lögreglustjórans á Noðurlandi eystra eru Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Hörgársveit, Akureyri, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhreppur, Grýtubakkahreppur, Þingeyjarsveit, Skútustaðarhreppur, Norðurþing, Tjörneshreppur, Svalbarðshreppur og Langanesbyggð. Aðalstöð og aðsetur lögreglustjórans verður á Akureyri í húsnæði lögreglustöðvarinnar við Þórunnarstræti. Þá verða aðrar starfsstöðvar lögreglunnar þar sem verið hefur á Húsavík, Siglufirði, Dalvík og Þórshöfn.
Á fésbókarsíðu lögreglunnar á Akureyri segir að undirbúningur hins nýja embættis sé vel á veg kominn og ætti allt að verða tilbúið um áramót. Minniháttar lagfæringar hafi þurft að gera á lögreglustöðinni vegna nýrrar starfsemi en auk lögreglustjórans flytjast þangað fjórir starfsmenn sem áður störfuðu á sýsluskrifstofunni. Öll þjónusta mun verða áfram eins og verið hefur.