Undanúrslitin í N1-deild karla í handbotla halda áfram í dag þegar Akureyri sækir HK heim og Fram og FH mætast í Framhúsinu og hefjast leikirnir kl. 16:00.
Akureyri og FH standa vel að vígi fyrir leikina í dag en bæði liðin eru 1:0 yfir í sínu einvígi. Það lið sem vinnur tvo leiki kemst í úrslit og því gætu Akureyringar komist í úrslit í fyrsta skiptið, nái þeir að leggja HK að velli í dag.
Norðanmenn virðast kunna afar vel við sig í Digranesi en þrisvar hafa Akureyri og HK mæst þar í vetur og alltaf hafa Akureyringar unnið.
„Þetta hús virðist henta okkur ágætlega og við ætlum að klára þetta á þeirra heimavelli,“ sagði Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar eftir sigur norðanmanna í fyrsta leiknum á heimavelli sl. fimmtudag, 26:24.
HK-menn eiga hins vegar allt undir í leiknum í kvöld og liðið sýndi það í leiknum á fimmtudaginn að þeir geta vel staðið í Akureyrarliðinu og gott betur.
Vinni HK í dag mætast liðin í oddaleik á Höllinni á Akureyri á mánudagskvöldið kemur kl. 19:30.