Umgengni ferðamanna í fjallaskálum fer versnandi

Lambi, skáli Ferðafélags Akureyrar/ mynd FA
Lambi, skáli Ferðafélags Akureyrar/ mynd FA

Umgengni ferðamanna í fjallaskálum hefur farið versnandi undanfarin misseri, samkvæmt tilkynningu sem nokkur ferða- og útivistarfélg hafa sent frá sér. „Stöðugt færist í vöxt að dyrum og gluggum sé ekki lokað þegar hópar yfirgefa skála og  hefur það leitt til stórskemmda þegar snjóar inn.  Almennri umgengni og hreinlæti ferðamanna í fjallaskálum fer einnig aftur. Góður ferðamaður leggur metnað sinn í að skilja við húsnæði hreint, gólf þvegin sem og borð og bekki. Hann skilur ekki eftir sorp eða óuppþvegin matarílát og afganga.  Áfengisneysla í fjallaskálum fer stundum úr böndum en ætti ekki að þekkjast á fjöllum eða að vera tilgangur fjallaferða.  Í einstaka tilvikum hefur það leitt til þess að ferðamenn ganga jafnvel örna sinna innandyra í anddyri fjallaskála eða í nágrenni þeirra,“ segir í tilkynningunni.

 Bent er á að innréttingum og lausamunum hafi verið stolið úr fjallaskálum og höfða félögin til allra ferðamanna um að taka höndum saman og bæta umgengni og ferðahegðun. 

„Við viljum biðja þá sem verða vitni að slæmri hegðun og sóðaskap eða lögbrotum og hættulegu athæfi á borð við akstur undir áhrifum áfengis að reyna eftir megni að veita ferðamönnum aðhald með ábendingum og vísa afbrotum til lögreglu. Myndir og skráning númera ökutækja geta veitt aðhald á sama hátt og þögn og afskiptaleysi ýtir undir slæma hegðun og heimilar hana óbeint.“ 

Nýjast