Um fjárhagsáætlun Akureyrar
Fyrri umræðu um fjárhagsáætlun Akureyrar er lokið í bæjarstjórn. Þessi áætlun er með nokkuð öðrum blæ en sú síðasta sem ég greiddi atkvæði gegn, einn bæjarfulltrúa, við afgreiðslu hennar í bæjarstjórn fyrir ári. Það voru mér vonbrigði að hinir bæjarfulltrúar minnihlutans skyldu þar ekki hafa gengið í lið með mér. Því miður ætla áhyggjur mínar að ganga eftir og allt stefnir í töluverðan halla á bæjarsjóði. Nú vilja margir Lilju kveðið hafa.
Stöðugildum fjölgar
Það er ýmislegt sem ekki hefur gengið eftir hjá meirihlutanum í fjárhagsáætlunargerð hingað til. Nærtækast er að nefna að meirihlutinn hefur ekki nýtt sér starfsmannaveltuna til að ná niður kostnaði eins og stefnt var að, heldur þvert á móti hefur stöðugildum fjölgað. Ætla má að hvert stöðugildi kosti að jafnaði um 6,3 milljónir króna á ári og bara fjölgun stöðugilda milli áranna 2011-12 má varlega áætla að hafi kostað um 115 milljónir króna.
Þá hefur gætt mikillar bjartsýni um tekjur, sem að vísu hefur að hluta til gengið eftir þar til núna í ár og þá munar líka verulega. Bjartsýni er nauðsynleg, en ég hef ítrekað bent á að þá er hætta á að menn skirrist við að passa upp á gjaldahliðina. Í fyrra var þó fyrstu tekjuáætlanir tónaðar nokku niður, sem betur fer, en enginn hljómgrunnur var fyrir því að höggva frekar í útgjöldin. Það er að koma okkur í koll núna.
En eins og eg nefndi hér í byrjun þá er sú áætlun sem nú liggur fyrir raunsærri en sú í fyrra um marga hluti og m.a. annars hefur verið unnið að útfærslu á 200 milljón króna hagræðingarkröfu. Þá hefur íbúaspá verið endurskoðuð og tekjuáætlun er nú hófsamari.
1,0 til 1,3 milljarðar
Þá fagna ég því að meirihlutinn hafi gengist inn á tillögu mína um að fresta hreinsivirki fyrir fráveituna, en í stað þess leggja út, í fyrstu atrennu, 250 metra langa útrás í Sandgerðisbót og síðan lengja hana í 500 metra og þá með dælingu. Ég hef talað fyrir þessari lausn lengi og m.a. lagt til við fjárghahgsáætlunargerð fyrri ára. Með þessu er hægt að létta á fjárfestingum bæjarins sem nemur 1,0 til 1,3 milljörðum króna á næstu árum. Það munar um minna. Það losar um fé til annarra framkvæmda en kannski ekki síst til að greiða niður skuldir enn frekar, en mér þykir sýnt að bærinn þurfi að koma skuldum niður undir 100% af tekjum miðað við hvernig framlegð bæjarkassans hefur verið undanfarin ár.
Stöðugleiki lykilatriði
Framundan er vinna við nýja samninga á vinnumarkaði. Reykjavíkurborg ákvað á dögunum , eftir tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, að falla frá áætluðum gjaldskrárhækkunum. Það er mikilvægt að önnur sveitarfélög skoði þetta einnig og hér getur ríkið heldur ekki skorast undan og verður að bæta betur í . Stöðugleiki á vinnumarkaði er lykilatriði til þess að hjól atvinnulífsins snúist áfram og við náum að slíta okkur hægt og bítandi úr viðjum kreppunnar.
Ég vona að bæjarstjórn Akureyrar horfi til þessa þegar gjaldskrár bæjarins verða afgreiddar á næstu dögum. Ég tel einnig að Norðurorka hafi borð fyrir báru í þessum efnum, þó svo að þar séu lagðar til hófsamar gjáldskrárhækkanir. Hér munar um allt.
Ólafur Jónsson.
Höfundur er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri