Um 730 keppendur á Andrésar Andar leikunum á skíðum

Andrésar Andar leikarnir á skíðum verða settir í kvöld kl. 20:30 í Íþróttahöllinni í Akureyri í 35. sinn. Kl. 20.00 fara þátttakendur í skrúðgöngu frá KA-heimilinu að Íþróttahöllinni. Um 730 keppendur víðs vegar af landinu eru skráðir til þátttöku í ár. Þeir eru á aldrinum 7-14 ára og verður keppt frá fimmtudegi til laugardags í Hlíðarfjalli. Keppt verður í svigi, stórsvigi, göngu með hefðbundinni aðferð og frjálsri aðferð og einnig verður keppt í þrautabraut.  

Keppni hefst klukkan níu í fyrramálið, fimmtudag, og verður þétt dagskrá alla þrjá keppnisdagana. Verðlaunaafhending verður í Íþróttahöllinni eftir hvern keppnisdag en mótinu lýkur um miðjan dag á laguardag með verðlaunaafhendingu og mótslitum í Íþróttahöllinni.

Ingólfur Gíslason, formaður Andrésar Andar nefndarinnar, segir að keppendurnir í ár séu heldur færri en hafa verið undanfarin ár og sé það helst snjóleysi um að kenna. „Þetta hafa yfirleitt verið á bilinu 760-780 keppendur. Það munar svo miklu um snjóleysið vegna þess að þá fáum við ekki nýja krakka til okkar," segir Ingólfur, og þá við snjóleysið sunnan heiða því nóg er af snjónum í Hlíðarfjalli.

„Aðstæður eru frábærar og nægur snjór. Þetta er bara snilldin ein og það er vonandi að veðrið verði gott," segir Ingólfur. Komin er upp sú hugmynd að gefa út bók um Andrésar Andar leikanna. „Það er stefnt að því að bókin komi út á næstu leikum og verði 35 ára saga leikanna. Það verður vegleg bók," segir Ingólfur.

Nýjast