Um 500 heimili með endurvinnslustunnu

Græna endurvinnslutunnan sem boðið hefur verið upp á á Akureyri síðan sl. vor hefur fengið mjög góður viðtökur að sögn Árna Leóssonar hjá Gámaþjónustu Norðurlands. Hann sagði að um 500 heimili væru komin með tunnu. Að sögn Árna hefur endurvinnslutunnan fengið mun betri móttökur en hann átti von á og sagði hann að í vor hafi Gámaþjónustan ekki annað eftirspurn en nú sé búið að laga það. Tunnan kostar 990 krónur á mánuði og er innifalið í því verði ein losun á mánuði. Til að fá tunnu þarf einfaldlega að hafa samband við Gámaþjónustuna, gefa upp grunnupplýsingar og ganga frá greiðslu. „Það má allt fara í þessa tunnu nema gler," segir Árni og bendir um leið á að þessi leið sé mjög þægileg, t.d. losni fólk við ferðir með rusl sitt í gáma, sem margir hverjir taki ekki nema tvo flokka af rusli. Dagblöð, tímarit, skrifstofupappír, bæklingar, umslög, ruslpóstur og pappi, (s.s. hreinir pizzukassar og morgunkornspakkar) mega fara beint ofan í tunnuna. Auk þess má setja í tunnuna, í plastpokum og þá eina tegund af rusli í hvern poka, málma (s.s. niðursuðudósir og lok af glerkrukkum), fernur, plastumbúðir (s.s. sjampóbrúsa, plastdósir, plastpoka og plast).

Nýjast