Um 370 milljóna króna niðurskurður til framhaldsskólanna boðaður
Stjórn Félags framhaldsskólakennara hefur sent frá sér ályktun um fjárlagafrumvarp 2012 og niðurskurð á fjárveitingum til framhaldsskóla. Þar kemur fram að ef fjárlagafrumvarpið verður samþykkt óbreytt munu framhaldsskólarnir búa við áframhaldandi fjársvelti sem leggst þungt ofan á mikinn niðurskurð undanfarinna ára. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012 er boðaður tæplega 370 milljóna kr. niðurskurður til framhaldsskólanna eða um 2% að meðaltali á hvern skóla.
Ennfremur segir í ályktuninni: Þessi niðurskurður samsvarar fjárframlagi til að kosta framhaldsskólanám um 500 nemenda á næsta ári. Í skýrslum OECD um menntamál kemur fram að árleg útgjöld vegna hvers nemanda í íslenskum framhaldsskólum lækkuðu að raunvirði milli áranna 2006 og 2007 og voru þegar á þeim árum lág í alþjóðlegum samanburði. Árið 2008 voru árleg útgjöld hér á landi á hvern framhaldsskólanemanda í fullu námi að raunvirði 12% undir meðaltalinu í löndum OECD.
Framhaldsskólinn stóð verulega höllum fæti í fjárveitingum áður en kreppan skall á haustið 2008 og síðan þá hefur mikill niðurskurður fjármuna til framhaldsskólastarfs aukið á vandann. Hálfur annar milljarður hefur verið tekinn út úr rekstri framhaldsskóla með beinum niðurskurði fjárframlaga og önnur eins upphæð sem ætluð var til framkvæmdar nýrra framhaldsskólalaga hefur aldrei komist til skólanna. Grunnþjónusta við nemendur hefur verið skorin niður sem birtist í minni stuðningi við nemendur, minna námsframboði og fjölmennari námshópum. Stór hluti kennara finnur fyrir streitu og álagi í starfi vegna aðgerða í skólunum sem tengjast kreppunni og starfskjörum hrakar.
Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir fjárveitingum til ýmissa ágætra verkefna sem tengjast ákvörðunum stjórnvalda fyrr á þessu ári um að opna framhaldsskólana fyrir fleiri nemendum og efla skólastigið. Þegar tillögurnar eru skoðaðar kemur í ljós að fjármunir vegna þessara nýju verkefna renna að mjög takmörkuðu leyti til skólastarfs í hinu opinbera framhaldsskólakerfi. Engu að síður er ætlast til að skólarnir taki við fleiri nemendum.