Um 36.000 manns komu í Íþróttahöllina á tveimur mánuðum

Aðalsteinn Sigurgeirsson forstöðumaður Íþróttahallarinnar á Akureyri.
Aðalsteinn Sigurgeirsson forstöðumaður Íþróttahallarinnar á Akureyri.

Það er jafnan mikið líf í Íþróttahöllinni á Akureyri og reyndar mun meira en flestir gera sér grein fyrir, enda fer þar fram umfangsmikil starfsemi. Íþróttahöllin er miklu meira en bara íþróttahús og að sögn Aðalsteins Sigurgeirssonar forstöðumanns komu um 36.000 manns í Höllina nú í mars og apríl, eða ríflega tvöfaldur íbúafjöldi Akureyrar. Í Höllinni fer fram leikfimikennsla yfir vetrartímann fyrir nemendur í Brekkuskóla, MA og VMA, frá morgni og fram á miðjan dag en þá taka við æfingar hjá íþróttafélögunum fram til kl. 23.00. Aðalsteinn segir að þar fyrir utan séu Lyftingafélag Akureyrar, Skákfélag Akureyrar, Golfklúbbur Akureyrar, Mæðrastyrksnefnd, Akureyri handboltafélag og Heimahjúkrun með aðstöðu í Höllinni. Þá mun Skotfélag Akureyrar opna sína aðstöðu í húsinu næsta haust.

“Það er jafnan mikið um að vera hér og á hverju ári er töluvert um fastar stórar uppákomur, frá mars og fram í júní” segir Aðalsteinn. Ein stærsta árshátíð landsins, ef ekki sú stærsta, árshátíð Akureyrarbæjar, var haldin í Höllinni í mars og sóttu hana um 1.200 manns. Útgerðarfyrirtækið Samherji hélt einnig um 1.000 manna árshátíð á dögunum og komu gestir víða að úr heiminum. VMA heldur sína árshátíð í Höllinni og framundan eru svo stórar veislur í tengslum við brautskráningu MA og heimsókn eldri stúdenta til bæjarins. Aðalsteinn segir að hér sé um að ræða svo stóra viðburði, að þeir kæmust ekki fyrir í öðrum húsum í bænum. Ekki sé því verið að keppa við aðra aðila á þessum markaði en að þeir séu aftur á móti fjölmargir sem njóti góðs af þessum uppákomum og heimsóknum gesta til bæjarins í tengslum við þær.

Háskólinn á Akureyri verður með sína brautskráningu í Höllinni í júní og þá verður Höldur með stóra og mikla bílasýningu síðar í þessum mánuði. Hængsmótið, opið íþróttamót fyrir fatlaða, fór fram í Höllinni, um og eftir síðustu helgi. Keppendur voru um 230 talsins og fylgdi þeim stór hópur aðstoðarfólks. Verðlaunaafhendingar á Andrésar Andar leikunum fóru fram í Höllinni á dögunum. Keppendur voru um 660 og fylgdi þeim einnig mikill fjöldi fólks. Á Skólahreysti á dögunum var troðfullt hús og þá fór þar fram stórt öldungamót í blaki í mars sl, þar sem keppendur voru um 350 talsins. Þá verður vetrarstarfi Félags eldri borgara slitið í Höllinni síðar í þessum mánuði, með hádegisverði og skemmtun.

Húsfyllir var á undanúrslitaviðureign Akureyrar og FH á Íslandsmótinu í handknattleik á dögunum og reyndar var vel mætt á leiki Akureyrar í vetur. Í sumar verður sætum í Höllinni fjölgað um 500, með nýjum útdregnum bekkjum niðri á gólfi. Við breytinguna verða sæti fyrir alls 1.110 manns. Aðalsteinn segir að oft hafi verið fleiri í húsinu, eða allt að 2000 manns á tónleikum.

Íþróttahöllin verður 30 ára á þessu ári og hefur Aðalsteinn verið forstöðumaður frá upphafi. Hann segir það eintstaklega ánægjulegt að kynnast öllu því fólki sem hefur verið  að standa fyrir viðburðum í húsinu. “Það gerir þetta starf svo fjölbreytt og skemmtilegt.” Auk Aðalsteins, vinna fjórir starfsmenn í Íþróttahöllinni og sjá þeir um öll þrif og annað í mannvirkinu.

 

Nýjast