Um 250-350 milljónir króna renna beint í afslætti til félagsmanna KEA

Forsvarsmenn KEA, Hannes Karlsson, Halldór Jóhannsson, Björn Friðþjófsson, Jóhannes Jónsson og Guðla…
Forsvarsmenn KEA, Hannes Karlsson, Halldór Jóhannsson, Björn Friðþjófsson, Jóhannes Jónsson og Guðlaug Kristinsdóttir.

Félagsmönnum KEA hefur fjölgað mikið á síðustu árum og KEA kortið eflst með hverju árinu. Á síðasta ári fjölgaði félagsmönnum um 616, þeir voru 17.355 í upphafi árs en 17.971 um síðustu áramót. Í dag er fjöldinn kominn yfir 18.000. “Fullyrða má að  milli 250-350 milljónir króna renni beint og milliliðalaust í afslætti til félagsmanna KEA á grundvelli þeirra afsláttarsamninga sem KEA kortið veitir. Þetta er góð arðgreiðsla til félagsmanna en stundum er eins og sumir átti sig ekki á því hvað þessi þáttur í starfsemi félagsins er að færa þeim í aðra hönd,” segir í ávarpi þeirra Halldórs Jóhannssonar framkvæmdastjóra KEA og Hannesar Karlssonar stjórnarformanns, í ársskýrslu síðasta árs.

“Þessir fjármunir sjást ekki í rekstrarreikningi félagsins og mælast því ekki með beinum hætti en til þeirra ber engu að síður að horfa  þegar heildarhagur af starfsemi félagsins er metinn. Miðað við  rekstrarniðurstöðu síðasta árs má segja að rúm 60% af hagrænum ábata félagsmanna hafið komið frá KEA kortinu. Nýlegar kannanir staðfesta gríðarmikla notkun KEA kortsins og almenna ánægju með útfærslu og virkni  þess. Atlaga var gerð að KEA og KEA kortinu á síðasta ári er KEA var kært til Samkeppniseftirlitsins  vegna KEA kortsins. Sú atlaga missti  marks. Málið var ekki tekið til rannsóknar af hálfu Samkeppniseftirlitsins í kjölfar kærunnar enda ekkert að skoða og því til staðfestingar taldi Samkeppniseftirlitið KEA ekki vera aðila að málinu. KEA mun taka fast á móti þeim sem reyna að draga félagið inn í mál af þessum toga,” segir ennfremur í ávarpinu. 

Hannes endurkjörinn formaður stjórnar

Aðalfundur KEA var haldinn í Menningarhúsinu Hofi í gærkvöld og var hann vel sóttur. Alls eru sjö aðalmenn í stjórn félagsins og eru þeir kosnir til tveggja ára í senn. Að þessu sinni höfðu fjórir stjórnarmenn setið í tvö ár, þeir gáfu allir kost á sér áfram og þar sem ekki voru fleiri í kjöri, voru þeir sjálfkjörnir. Þetta voru þau Hannes Karlsson, Björn Friðþjófsson, Ólína Freysteinsdóttir og Birgir Guðmundsson. Á stjórnarfundi að loknum aðalfundi var Hannes Karlsson endurkjörinn formaður stjórnar, Björn Friðþjófsson var endurkjörinn varaformaður og Jóhannes Jónsson var endurkjörinn ritari. Auk Birgis og Ólínu, eru þau Guðlaug Kristinsdóttir og Hallur Gunnarsson meðstjórnendur.

Engin dauðafæri fóru forgörðum

Í ávarpi Halldórs framkvæmdastjóra og Hannesar stjórnarformanns, í ársskýrslu síðasta árs, segir ennfremur, að við mat á heildstæðum árangri í starfi félagsins síðustu ár sé mikilvægt a að gera sér grein fyrir ákvörðunum fyrri tíðar, þeirri stefnu sem rekin hafi verið síðustu ár og ekki síst ytra umhverfi. “Allar  eignir félagsins sem byggðar höfðu verið upp á mörgum áratugum voru seldar á árunum 2002-2004. Þau ár sem síðan fóru í hönd voru ein mestu bóluár í íslensku hagkerfi. Félaginu var legið á hálsi fyrir að taka ekki  þátt af krafti í þeirri fjárfestingaveislu sem þá átti sér stað. Þó það hafi ekki verið gert í jafn ríkum mæli og þá tíðkaðist var ekki svo að ekkert hafi verið aðhafst. Á þessum tíma kom KEA að stofnun fjölmargra fyrirtækja og keypti umtalsverða eignarhluti í starfandi fyrirtækjum. Sumar af þeim fjárfestingum glötuðust eða lækkuðu í verði í bankahruninu. Flest á þessum tíma var gert af stillingu en sameiginlegt einkenni þessara verkefna flestra var að þau voru í fyrirtækjum á félagssvæði KEA. Fullyrða má að fyrirtækjaflóra og staðbundið eignarhald á fjölmörgum fyrirtækjum á svæðinu væri allt annað en nú ef ekki væri fyrir tilvist KEA og fjárfestinga þess,” segja þeir félagar. Engin dauðafæri hafi farið forgörðum en þetta hafi ekki verið tími fyrir KEA til þess að fjárfesta frekar aðra.

Framboð verkefna takmarkað

Halldór og Hannes segja að ekki skorti vilja til fjárfestinga en framboð verkefna til þessa hafi verið takmarkað.  KEA sé langt frá því að vera eini aðilinn með fjárfestingagetu, sem hefur átt erfitt með að finna áhugaverð verkefni. “Síðustu 8 ár hafa verið öfgakennd, fyrst fordæmalaus eignabóla og svo þar á eftir eitt mesta fjármála- og efnahagshrun sem um getur.  Það er ekki sjálfgefið að hafa sem fjárfestingarfélag farið í gegnum þessar miklu hremmingar og vera uppi standandi á eftir. Mestu máli skiptir að félagið stendur enn með getu til verka eftir þetta sveiflusama tímabil og vert er að hafa í huga að þessi tími í nærri 130 ára sögu félagsins er ekki langur. Félagið hefur áður farið í gegnum öldudali og beðið af sér erfitt umhverfi og vond rekstrarskilyrði. Mikilverðast er að halda rétt á spilunum í þessari stöðu. Örlög fjölmargra samvinnufélaga eru þau að hafa orðið skammtímahugsun að bráð. Við ætlum ekki að láta það  henda KEA.” 

Halldór og Hannes benda jafnframt á að félagsmenn hafi mikinn skilning á þessari stöðu. Nýleg skoðanakönnun meðal félagsmanna leiði í ljós að vilji þeirra falli algjörlega að núverandi stefnu félagsins, þ.e.a.s. að fjárfesta sig inn í rekstur þannig að félagsmenn geti beint eða óbeint átt viðskipti við félagið. Þeir félagar komu einnig inná að jákvæðni almennings í garð félagsins hafi ekkert minnkað og í nýrri skoðanankönnun Capacent nýtur félagið hvað mestrar jákvæðni í sinn garð af þeim fyrirtækjum sem Capacent hefur mælt. Af þeim sem taka afstöðu eru um 95% þeirra jákvæðir í garð félagsins og að það sé ótvírætt merki um að sátt sé um umgjörð og áherslur í starfi félagsins.

KEA beitt sér af þunga í umgjörð sparisjóðanna

“Það er ekki auðsótt verk að ná fram því markmiði að fjárfesta í rekstri sem er í meirihluta eða að öllu leyti í eigu KEA á ekki stærri markaði en hér er og án þess að hefja samkeppnisrekstur við fyrirtæki í eigu heimamanna. KEA hefur í þessu samhengi um töluverðan tíma haft áhuga á því að fjárfesta sig inn í smásölubankastarfsemi og horft á sparisjóði sem valkost í þeim efnum enda falla vel saman hugmyndafræði sjóðanna og KEA. Sú áhersla hefur verið talin mæta stefnumörkun félagsins vel í alla staði. Bankahrunið hafði afgerandi áhrif á þau áform, m.t.t. umfangs og framvindu en þau hafa síður en svo verið yfirgefin og á KEA nú 46% stofnfjár í Sparisjóði Höfðhverfinga sem  hefur opnað starfsemi á Akureyri. KEA hefur beitt sér af töluverðum þunga í umgjörð sparisjóðanna og óhætt að  segja að sú vinna hefur haft nokkuð afgerandi áhrif á heildarumgjörð þeirra með jákvæðum hætti. Rekstrarumhverfi fjármálafyrirtækja er þó enn tvísýnt.”

KEA tók þátt í nokkrum opnum söluferlum fyrirtækja, eitt og sér sem og í samstarfi við aðra fjárfesta án þess að það skilaði fjárfestingu. Tilraunir til kaupa á öðrum fyrirtækum hafi heldur ekki borið árangur. KEA á eignarhluti í rekstrarfélögum á félagssvæðinu þar sem unnið er að mörgum verkefnum af ólíkum toga. Áhersla er lögð á virka þátttöku KEA í stjórnun þessara félaga eins og efni og ástæður gefa tilefni til.  Eðli máls samkvæmt hefur víða þurft að taka til hendi í kjölfar hrunsins en margt bendir til þess að góðir tímar kunni að vera framundan hjá mörgum þeirra fyrirtækja sem félagið á eignarhluti í.”

Rekstur KEA á síðasta ári var með svipuðu sniði á síðasta ári og árið áður. Hagnaður félagsins í fyrra nam 160,6 milljónum króna. Eignir félagsins námu 4,5 milljörðum króna í árslok, bókfært eigið fé var 4,4 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall félagsins 98,1%.

Nýjast