Um 25 aðilar vilja bætur eftir hamfarirnar

Um 25 aðilar hafa gefið upplýsingar um tjón sem þeir urðu fyrir í hamförunum sem gengu yfir Eyjafjarðarsveit í vikunni fyrir jól. Óvíst er hversu mikið af þessum tjónum fást bætt. Bjarni Kristjánsson sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit sagði að þetta væri sá fjöldi manna sem teldi sig hafa orðið fyrir tjóni sem Bjargráðasjóður ætti að bæta.

„Bjargráðasjóður mun taka öll þessi mál til skoðunar en það er sennilegt að ekki fái allir þær bætur sem þeir óska eftir," segir Bjarni. Hann segir t.d. ljóst að Bjargráðasjóður bæti ekki tjón á landi nema um ræktað land sé að ræða. Þá telur Bjarni að skemmdir sem orðið hafa vegna úrrennslis úr vegum, t.d. heimreiða, fáist varla bætt. Öðru máli gegni um girðingar og ræktað land, skemmdir á þeim muni fást bættar sem og tjón á skepnum og áhöldum ef skepnurnar eru ekki tryggðar annars staðar. „En Bjargráðasjóður mun skoða þessi mál öll og tekur ákvörðun um hvað fæst bætt og hvað ekki," sagði Bjarni. Nánar er fjallað um þetta mál í Vikudegi í dag.

Nýjast