Tyrkneskur kjúklingur og marengsterta

Fjölmargir lesendur Vikudags hafa óskað eftir því að farið verði af stað með matar- og uppskriftarþátt í blaðinu. Blaðið er fyrir ykkur lesendur góðir og því full ástæða til að verða við þeirri ósk og hér kemur sá fyrsti. Það er Svanhildur Bragadóttir hjúkrunarfræðingur og nemi sem kemur með fyrstu uppskriftirnar í matarkrókinn.

Hún er bæði með ungling og yngri börn og reynir að vera með létta rétti sem öllum í fjölskyldunni þykja góðir og þessi réttur er einmitt þannig. Það er eins með marengstertuna sem öllum finnst ómissandi og er ekkert aðfangadagskvöld eða afmæli án kökunnar.

Tyrkneskur kjúklingur

3 - 4 kjúklingabringur

salt

4 msk ólífuolía

1 laukur

1 græn paprika

1 rauð paprika

1 kúrbítur

200 g belgbaunir - má sleppa

250 gr meðalstórar kartöflur

400 g niðursoðnir tómatar (1 dós )

1 tsk timian

1 ¼ dl grænmetissoð - má sleppa

1 dós sýrður rjómi

2 hvítlauksrif

safi úr einni sítrónu

smá steinselja

Þvoið og þerrið kjúklingabringurnar og kryddið með salti. Steikið kjúklingin í olíunni og takið hann síðan af. Saxið laukinn og léttsteikið á pönnunni þar til hann er glær. Skerið paprikur í bita og bætið þeim út í. Skerið kúrbítinn í fjóra hluta langsum, takið kjarnarnn úr og skerið hverja lengju í þrjá bita. Skerið flysjaðar kartöflur í bita. Látið kúrbít baunir og kartöflur á pönnuna og látið krauma stutta stund. Látið tómatana ásamt safa í matarkvörn eða merjið þá og látið ásamt timjani og grænmetissoði út á pönnuna. Hrærið í. Hellið sósunni ásamt grænmeti í smurt, ofnfast fat og raðið kjúklingabitunum ofan á. Leggið lok eða álpappír yfir fatið og bakið við 180°C í 30 - 40 mínútur. Merjið hvítlaukinn. Blandið saman sýrðum rjóma, hvítlauk salti sítrónusafa og steinselju. Raðið kjúklingabitunum á mitt fatið og ýtið grænmetinu til hliðanna, hellið sósunni yfir grænmetið og berið fram strax.

Uppskriftin er fyrir 4 - undirbúningur 30 mínútur - bökunartími 40 mín.

Með þessu er gott að hafa pasta þá gjarnan spelt pasta, ferskt salat og/eða speltbrauð.

Speltbrauð: 350 g speltmjöl, 75 g sesamfræ eða annað korn, 2 msk kúmen, 3 msk vínsteinslyftiduft, 1 tsk salt, 0,4 dl volgt vatn. Hrærið allt saman með sleif, setjið í form og bakið við 190 °C í 1.klst. Gott er að tvöfalda þessa uppskrift.

Marengsterta

4 eggjahvítur

200 g sykur 

70 g kornflex

1/2 tsk lyftiduft 

1/2 l rjómi

100 g suðusúkkulaði

1 dós niðursoðnar ferskjur eða ferskir ávextir t.d. jarðaber og bláber

Stífþeytið eggjahvíturnar. Bætið sykri út í og þeytið vel. Myljið kornflögur og hrærið varlega saman við eggjahvíturnar ásamt lyftidufti. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu. Teiknið tvo hringi á pappírinn, um 23-25 sm í þvermál, þ.e. stærð matardisks. Skiptið deiginu í tvennt og smyrjið á hringina. Bakið í 150° C heitum ofni í klukkutíma. Kælið botnana á rist.

Þeytið rjómann. Saxið súkkulaðið og blandið varlega saman við rjómann ásamt ávöxtum eða berjum. Setjið rjómann á milli botnanna.

Svanhildur skorar á vinkonu sína Halldóru Skúladóttur hjúkrunarfræðing fyrir næsta blað sem hún segir alltaf svo myndarlega í eldhúsinu.

Nýjast