Tugmilljóna króna tjón á lóðum í Naustahverfi

Beðið er niðurstöðu matsnefndar vegna skemmda sem orðið hafa á lóðum um 15 íbúða við Brekatún í Naustahverfi á Akureyri og er hennar að vænta innan skammst. Lóðir við næstu götu, Ljómatún hafa einnig skemmst og eru íbúar þar nú að leita réttar síns líkt og nágrannar þeirra við Brekatún.  

Áætlað er að tjónið nemi tugum milljóna króna, en talið er að ástæða þessa sé sú að jarðvegur hefur sigið um allt að hálfan metra. Líklegt þykir að rekja megi sigið til byggingar stærsta fjölbýlishúss bæjarins, við Kjarnagötu en við framkvæmdir þar hafi vatnsbúskapur jarðvegarins breyst.  Húsin sjálf standa á föstum grunni þannig að þau síga ekki, en lóðir, bílaplön og jafnvel verandir við húsin eru illa leikin víða.  Ekki hefur náðst sátt um hver beri ábyrgð á tjóninu og voru því dómskvaddir matsmenn kvaddir til og skila þeir sem fyrr segir skýrslu sem væntanleg er í kringum næstu mánaðamót.

„Byggingaraðilum hefði átt að vera ljóst að vel þyrfti að vanda til grundar á mannvirkjum sem eru þyngri en moldarjarðvegurinn sem fyrir var, t.d. hvað varðar steypta stoðveggi, bílaplön og stéttar eins og aðstæður voru við Brekatún.  Grundun niður á fastan jarðveg hefði komið í veg fyrir þessar skemmdir en betn skal á að yfirborð grassvæða á lóðum hefði alltaf sigið," segir í svari frá Akureyrarbæ til Vikudags. 

Þar er tekið fram að flest bendi til að rekja megi skemmdir á mannvirkjum til vanhugsaðra grundunaraðferða miðað við aðstæður. Þá kemur fram í svari bæjarins að hann hafi fram til þessa ekki ræst fram byggingarlönd eða skilyrt byggingaraðila til þess, „enda nánast ógerningur að framkvæma slíkt þar sem að margir aðilar þyrftu að koma að málum auk þess að um mjög svo kostnaðarsamar aðgerðir er að ræða og ekki fordæmi fyrir s.s. í öðrum sveitarfélögum," segir þar, en fram hafa komið ábendingar um að Akureyrarbær hefði átt að ræsa fram mýri sem þarna er. Akureyrarbær mun leitast við að aðstoða við lausn þessa máls eftir fremsta megni og stuðla að farsælli lausn þess.

Nýjast