„Tryggja um 200 manns störf í sinni heimabyggð“

Þorsteinn Snævar Benediktsson, bruggmeistari og eigandi Húsavík öl. Mynd/epe
Þorsteinn Snævar Benediktsson, bruggmeistari og eigandi Húsavík öl. Mynd/epe

Frumvarp um íslenska netverslun með áfengi og heimild smábrugghúsa til beinnar sölu gæti varið afkomu frumkvöðlafyrirtækja og tugi starfa um allt land, að sögn stjórnar Samtaka íslenskra handverksbrugghúsa.

Samtökin afhentu dómsmálaráðherra áskorun á ráðherra, þingmenn og sveitarstjórnarfólk í hádeginu, og hvöttu til þess að málið yrði lagt fram á nýjan leik. 

„Íslensk handverksbrugghús eru nú á þriðja tug talsins, tryggja um 200 manns störf í sinni heimabyggð og skila tugum milljóna í skatttekjur á ári,“ segir Sigurður P. Snorrason, formaður samtakanna í tilkynningu

Hann bendir á að brugghúsin framleiði vandaðar og eftirsóttar íslenskar vörur og dragi til sín fjölda íslenskra og erlendra gesta. 

„Þannig eru brugghúsin oft mikil lyftistöng fyrir lítil samfélög í nærumhverfi sínu, sem mörg teljast til brothættra byggða,“ segir Sigurður.

Bruggverksmiðjan Kaldi á Árskógssandi og Húsavík öl eru meðal brugghúsanna sem skrifuðu undir áskorunina til ráðherra. Þorsteinn Snævar Benediktsson, bruggmeistari og eigandi Húsavík öl segir í samtali við Vikublaðið að hann harmi að frumvarpið hafi ekki orðið að lögum þegar dómsmálaráðherra lagði það fram í vor enda sé um gríðarlegt hagsmunamál fyrir lítil handverks brugghús að ræða. „Þetta myndi þýða það að ég gæti selt bjór út úr húsi í dósum sem neytendur geta tekið með sér heim. Það gleymist oft í umræðunni að bjór er ferskvara og ÁTVR er ekki alveg stofnun sem hentar fyrir svona lítil brugghús og þessa nýju kynslóð brugghúsa,“ segir hann og bætir við að eðli þessara litlu brugghúsa sé að vera í sífelldri tilraunastarfsemi og vöruþróun sé mjög ör. „Við erum að þróa nýjar og nýjar vörur. Ferlið við að koma nýjum tegundum inn í vínbúðirnar eru svo tímafrekt að okkar vörur eru einfaldlega ekki ferskar lengur þegar þær komast að,“ útskýrir Þorsteinn og bendir á það megi líta á starfsemi handverksbrugghúsanna sem listgrein þar sem unnið er með bragð og samsetningu bjórs úr fjölbreyttu hráefni. Enda hafi tilkoma þessara brugghúsa fært Íslendingum nýja tegund menningar sem hefur reynst ferðaþjónustunni hin besta landkynning.

Þegar frumvarpið var lagt fram í vor mætti það mikilli gagnrýni sem að mati Þorsteins var byggð á misskilningi. Helstu sjónarmið sem komu fram var að þarna væri verið að auðvelda Íslendingum aðgengi að áfengi á sama tíma og sóttvarnaryfirvöld mæltu með því að fólk neytti sem minnst áfengis. Þorsteinn bendir á að það breyti engu varðandi aðgengi ef hann fær að selja sínar vörur út úr húsi. Það sé nú þegar hægt að kaupa þessar vörur á lýðnetinu frá hvaða landi sem er nema Íslandi og fá sent heim að dyrum.

„Aðgengi að áfengi er nú þegar eins mikið og það myndi vera ef ég mætti selja mína vöru út úr húsi. Eini munurinn er sá að ég hef ekki sama aðgengi að mínum viðskiptavinum og erlendir aðilar. Við í þessum bransa erum búin að berjast lengi fyrir því að skapa þessa menningu og við verðum að standa vörð um hana og fá að sitja við sama borð og erlend brugghús. Svo við tölum nú ekki um kolefnissporið sem við minnkum við að kaupa þessar vörur innanlands,“ útskýrir Þorsteinn.

 

Breytingar í þágu umhverfisins og neytenda

Sigurður segir Covid-19 faraldurinn með tilheyrandi hruni í ferðaþjónustu hafa veruleg áhrif á mörg lítil frumkvöðlafyrirtæki í greininni. Þannig hafi gestafjöldi minnkað til muna og brugghúsin geti einungis keppt um mjög takmarkað hillupláss í áfengisverslunum ríkisins til að selja vörur sínar.

„Með heimild til sölu í netverslun og á framleiðslustað fengist varan nær framleiðslunni með verulega minnkuðu fótspori og á hagkvæmari hátt, með tilheyrandi jákvæðum áhrifum fyrir neytendur, umhverfið og afkomu brugghúsanna,“ segir Sigurður. 

Hann segir ljóst að núverandi kerfi stuðli að óeðlilegri mismunun, enda geti erlendir aðilar óhindrað selt íslenskum neytendum áfengi í netverslun. 

„Ef íslenskir framleiðendur vilja gera slíkt hið sama þurfa þeir að flytja vörur sínar til útlanda, til þess eins að þær verði fluttar heim aftur af erlendri netverslun með tilheyrandi kolefnisspori.“

Málið sameinar byggða- og forvarnarstefnu

Sigurður bendir á að breytingarnar gætu ekki aðeins orðið til happs fyrir atvinnulíf í brothættum byggðum, heldur mætti samhliða lögfesta aukið aldurseftirlit og tryggja áframhaldandi skatttekjur sem nýst gætu í forvarnar- og lýðheilsustarf. 

„Í síðasta frumvarpi ráðherra var gert ráð fyrir leyfissviptingu og refsiábyrgð vegna ófullnægjandi aldurseftirlits. Við fögnum slíkum kröfum og bendum á að engin slík ákvæði gilda um erlendar netverslanir,“ segir Sigurður. 

Hann ítrekar að bein sala í handverksbrugghúsum muni á engan hátt auka aðgengi ungs fólks að áfengi.

„Vörurnar yrðu einungis seldar á stöðum þar sem fólk á löglegum áfengiskaupaaldri má koma saman, rétt eins og gildir á vínveitingastöðum. Eina breytingin er sú að dósin er lokuð,“ segir Sigurður. 

Hann ítrekar mikilvægi þess að leggja áframhaldandi áherslu á forvarnir og lýðheilsu. 

„Slíku opinberu starfi má auðvitað sinna enn betur ef tekjur af sölu áfengis renna í auknum mæli í vasa íslenskra skattgreiðenda, frekar en erlendra fyrirtækja. Tillagan er því bæði í senn í innblásin af hag frumkvöðlafyrirtækja og starfsmanna þeirra, en ekki síður sjónarmiðum um byggðastefnu og aukna áherslu á forvarnir og aldurseftirlit.“ 

 


Athugasemdir

Nýjast