Til eru þær skoðanir að hinn sögulegi Jesú hafi örugglega verið til og gengið hér á jörðinni, það sé reyndar vel hægt að trúa á það sem hann sagði og gerði á sínum tíma. En þegar kemur að upprisunni, sem er víst megininntak páska og grundvöllur kristinnar trúar, þá er fremur numið staðar, staðfastur efasemdasvipur settur upp, og orðin hins vegar á ég erfiðara með að trúa á upprisuna hljóma sem niðurlag, skrifar séra Bolli Pétur Bollason í Laufási í aðsendri grein.
Þessar skoðanir eiga alveg rétt á sér og á margan hátt mannssálinni eðlilegar, ég þekki það sjálfur að geta verið á þessum stað í trúarþönkum. Efasemdir eru af hinu góða séu þær þá nýttar sem drifkraftur í trúarleit, þekking og löngun til að vita meira virkar þar sem næring og gerir það á flestum ef ekki öllum sviðum tilverunnar.