Tröllaslagur í Akureyrarkirkju

Þrír hávaxnir söngvarar og penn píanóleikari bjóða upp á ferðalag um undraveröld bassabókmenntanna á tónleikum í Akureyrarkirkju laugardaginn 20. febrúar og sunnudaginn 21. febrúar. Svo segir í fréttatilkynningu vegna tónleikanna en hér eru á ferðinni bassarnir Bjarni Thor Kristinsson, Kristinn Sigmundsson og Viðar Gunnarsson, auk Helgu Bryndísi Magnúsdóttur píanóleikara.

Þau fluttu sama prógram þrisvar sinnum fyrir fullu (leyfilegu) húsi í Salnum í Kópavogi fyrr í vetur. Á efnisskrá er bæði íslensk og erlend tónlist í skemmtilegri blöndu af glensi og alvöru. Bassarnir hafa allir starfað lengst af á óperusviðum erlendis og Helga Bryndís er meðal þekktari píanóleikara landsins. Tónleikarnir hefjast báða dagana kl 16 og hægt er að kaupa miða á tix.is undir nafninu Tröllaslagur og við innganginn. Einungis eru 80 sæti í boða á hvora tónleika vegna samkomutakmarkanna.


Nýjast