„Hátíðin gekk vonum framar, við seldum um helming miðanna sem við teljum okkur lukkuleg með, enda ekkert grín að koma einhverju nýju á koppinn,“ segir Sara Bjarnason verkefnastjóri sem ásamt Vikari Má, bónda og listmálara hélt nýja tónlistarhátíð á Hjalteyri um liðna helgi. Sú bar nefnið Kveldúlfur.
„Það gekk allt að óskum, bæði lista- og starfsfólk ásamt tónleikagestum naut sín afskaplega vel. Veðrið var fallegt og virkilega góð stemning. Við munum klárlega gera þetta aftur að ári. Tónlistarfólkið gisti á Hótel Hjalteyri og báru þau af því afskaplega góða söguna, voru virkilega ánægð með aðstöðuna og sér í lagi listaverkasafnið á staðnum,“ segir hún.
Listalíf á Hjalteyri er öflugt og staðurinn hentar einkar vel til tónleikahalds að sögn Söru. „Þessi mikla menning sem þar þrífst, hráar verksmiðjurnar, þetta fallega bæjarstæði og landfræðileg lega Hjalteyrar mynda saman kjöraðstæður til viðburðahalds.“
Á hátíðinni var einnig settur upp ávaxta- og grænmetismarkaður, opnar vinnustofur listafólks, húðflúr, varðeldur og fleira