Tólf til fjórtán ný störf í Seiglu

Slippurinn Akureyri keypti á vormánuðum á síðasta ári Bátasmiðjuna Seiglu í Reykjavík sem framleiðir smábáta úr plasti og hefur verið unnið að því síðan að flytja starfsemi fyrirtækisins til Akureyrar. Á athafnasvæði Slippsins er að ljúka byggingu á 800 fermetra skemmu þar sem starfsemin verður til húsa.

Að sögn Antons Benjamínssonar framkvæmdastjóra Slippsins er starfsemin á Akureyri nú að fara í gang og er reyndar búið að steypa einn bátsskrokk. „Þetta mun verða þannig að Seigla sér um alla plastvinnu en síðan koma að undirverktakar sem annast aðra þætti smíðinnar og er Slippurinn þar á meðal. Þetta er m.a. vinna við rafmagn og stál, vélaniðursetning og trésmíðavinna. Starfsmenn Seiglu verða átta talsins og flytja 6 þeirra hingað norður frá Reykjavík en alls mun þessi starfsemi skapa 12-14 ný störf hér í bænum," segir Anton.

Hann segir að talsverðar sveiflur séu ætíð í þeirri viðhaldsvinnu sem Slippurinn er að langmestu leyti í og með tilkomu Seiglu sé verið að reyna að jafna þær út. Hvað varðar verkefnastöðu Slippsins sé hún alveg þokkaleg og hafi verið fín að undanförnu. Viðræður eru í gangi um frekari verkefni og meðal þeirra eru verkefni sem gætu farið langt fram á árið og komið sér mjög vel fyrir fyrirtækið. Um 80 starfsmenn vinna hjá Slippnum. Á vinnusvæðinu eru einnig fyrirtækin Loftorka og DNG og eru starfsmenn á svæðinu nú um 130 talsins og mannvirki sem áður voru illa nýtt eru nú mjög vel nýtt.

Nýjast