Tólf milljóna króna halli
Rekstraruppgjör fyrri helmings ársins hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri liggur fyrir og sýnir halla upp á 12 milljón króna eða 0,4%. Þetta kemur fram í pistli Bjarna Jónassonar forstjóra SAk sem birtist á heimasíðu félagsins. Hann segir ennfremur að miðað við mikil verkefni á tímabilinu sé niðurstaðan ásættanleg. Umframkeyrsla er á launaliðum upp á um 23 milljón krónur, munar þar mestu um auknar greiðslur vegna yfirvinnu. Þær viðbótarfjárveitingar sem fengust í ár voru m.a. nýttar til að bæta mönnun á þeim einingum sem hafa búið við mikið álag og bæta við sumarafleysingar en svo er að sjá að það dugi ekki til."
"Almennur rekstrarkostnaður er um 17 milljónir umfram áætlun, á móti þessu kemur að sértekjur eru um 30 milljónum hærri en gert var ráð fyrir. Eftir sem áður stendur það markmið að skila hallalausum rekstri í árslok, því þarf að finna leiðir til að brúa það bil sem orðið er, segir Bjarni.
Legudögum fjölgar
Starfsemi tímabilið janúar til júlí sýnir ríflega 8% fjölgun legudaga milli ára. Á sama tíma hefur sjúklingum á legudeildum lítið fjölgað og meðallegutími hefur því lengst um 8%. Færri skráðar komur eru á dagdeildir eða um 9% og vegur þar þyngst breytt vinnulag á dagdeild barnadeildar, dagvist geðdeildar og dagdeild Kristnesspítala en komur á þær deildir eru um þriðjungur dagdeildarkoma. Komur á aðrar dagdeildir eru svipaðar á milli ára.
Veruleg aukning á slysadeild
Komur á slysa- og bráðamóttöku voru ríflega 9.600 og heldur þeim áfram að fjölga og eru um 9% fleiri en á sama tíma í fyrra. Ef við lítum til áranna 2011 og 2010 voru komur um 7.500 á þessu tímabili þannig að aukningin er verulega mikil eða um 28% síðan þá, segir Bjarni. Heildarfjöldi aðgerða fer upp um 10% og fæðingum fjölgar um 8%, þá eru rannsóknir einnig fleiri.