Tjón vegna kals í túnum hleypur á hundruðum milljóna

Séð yfir tún í Svarfaðardal    Mynd Sigurgeir Hreinsson
Séð yfir tún í Svarfaðardal Mynd Sigurgeir Hreinsson

Tjón af völdum kals i Eyjafirði og Þingeyjarsýslum hleypur á hundruðum milljóna króna. Langt er síðan tún hafi kalið í jafnmiklum mæli og nú. Ljóst er að fjöldi bænda þarf að taka upp tún og sá í þau en veður hefur ekki unnið með bændum nú í vikunni.

Sigurgeir Hreinsson framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar segir kal með meira móti og allmörg ár þurfi að fara aftur í tímann til að finna sambærilegt tjón af völdum kals.

Hann segir að eins og jafnan áður sé það svæðisbundið hvernig kalið leggst yfir túnin. Sáralítið sé um kalin tún í Eyjafjarðarsveit og út með firði að austanverðu, einstaka blettir á nokkrum túnum. Hörgárdalur er illa farinn vegna kals og hefur umfangið verið að koma æ betur í ljós á síðustu dögum einkum á svæði frá Þelamörk og í línu beint upp að Öxnadal „Þegar við komum svo út með firði að vestan þá fer kalið að aukast, það er talsvert á Árskógsströnd en langmest í Svarfaðardal, þar má segja að nánast hver einasti bær verði fyrir einhverju kaltjóni og víða er þetta á bilinu 50 til 60% túna sem hafa kalið,“ segir Sigurgeir. „Það má segja að þeir sem lenda verst í þessu eru með svo til öll tún ónýt.“

Máttu ekki við frekari áföllum

Ljóst sé að bændur þurfi margir hverjir að plægja og sá grasi eða grænfóðri, en veðrið sé ekki að hjálpa til, snjókoma eða slydda alla daga vikunnar. Hann segir líka að enn sé einhver klaki sé eftir í jörðu og ekki hægt að keyra um túnin öðruvísi en að úr verði moldarflag.

„Bændur máttu alls ekki við þessu ofan á annað sem þeir hafa verið að fást við síðustu daga, þeir máttu alls ekki við frekar i áföllum, það var nóg komið,“ segir Sigurgeir.


Athugasemdir

Nýjast