Tindastóll vann Norðurlandsslaginn

Leik Þórs og Tindastóls í Iceland Expressdeild karla í körfubolta sem fram fór í Íþróttahöllinni á Akureyri lauk nú rétt í þessu með sigri gestanna frá Sauðárkróki 82-77. Fráköstin í leiknum voru aðal munurinn á liðunum en Tindastólsmenn tóku mun fleiri sóknarfráköst en heimamenn sem svo skiluðu þeim nokkrum ódýrum en dýrmætum stigum þegar uppi var staðið.

Liðin skiptust á að hafa forystu í fyrri hálfleik en að honum loknum var staðan jöfn 39-39. Aldrei munaði meira en fimm stigunum í hálfleiknum og allt stefndi í hörku- spennandi leik sem varð svo raunin.

Þriðji leikhluti var mjög kaflaskiptur, Tindastólsmenn  skoruðu sex stig í röð og komust í 58-52 en þá tóku Þórsarar virkilega góðan sprett, skoruðu 11 síðstu stig leikhlutans og breyttu stöðunni í 63-58.

Fjórði leikhluti hófst eins og sá þriðji endaði, Þórsarar voru í miklum ham og juku forystu sína í 11 stig í stöðunni 72-61. Fáa hefði sennilega grunað að þeir gætu kastað frá sér sigri í leiknum á þessum tímapunkti því ekki voru nema um fimm mínútur til leikloka í þessari stöðu.

Við tók hins vegar skelfilegur lokakafli hjá Þór, gestirnir hreinlega röðuðu niður stigum án þess þó að vera að hitta sérlega vel, það munaði hins vegar mikið um að þeir tóku öll fráköst og fengu þess vegna jafnvel tvær til þrjár tilraunir til að skora í nánast hverri sókn. Þórsarar aftur á móti reyndu nánast eingöngu erfið þriggja stiga skot og afar lítið gekk hjá þeim gegn sterkri vörn gestanna.

Þegar ein mínúta var til leiksloka var staðan orðin jöfn 77-77 og gestirnir héldu í sókn. Þeir reyndu tvo skot án árangurs en alltaf náðu þeir frákastinu og svo fór að þeir skoruðu þriggja stiga körfu þegar ekki nema um 30 sek voru til leiksloka.

Þórsarar héldu í sókn en gekk illa að búa til góða skotstöðu fyrir þriggjastiga skot. Svo fór að Baldur Ingi Jónasson, sem annars hafði hitt vel úr þriggjastiga skotum sínum í leiknum, reyndi skot sem geigaði þegar um 10 sek voru til leiksloka. Tindastólsmenn voru skyndsamir á lokasekúndunum og kláruðu leikinn með því að skora úr tveimur vítaskotum í lokin. Lokatölur 82-77 fyrir Sauðkræklinga.

Þórsarar voru sjálfum sér vestir í þessum leik og köstuðu frá sér sigri með óskynsamlegum leik í lokin. Ekki skyldi þó taka það af gestunum að þeir spiluðu mjög sterka vörn í lokin og voru mun grimmari í fráköstunum allan leikinn. Tölurnar ljúga ekki, gestirnir tóku  48 fráköst í leiknum en heimamenn 29.

Gremjulegt tap hjá Þórsurum og annað tap þeirra í röð þessa helgina. Þeir sitja eftir leikinn í 7. Sæti með 6 stig. Tindastóll er hins vegar í þriðja sæti með 12 stig.

Stigahæstir hjá Þór voru Cedric Isom með 33 stig, Guðmundur Jónsson 15 og Baldur Ingi Jónasson 15.

Áhorfendur voru um 300 talsins og létu vel í sér heyra.

Nýjast