Tímalaus tenging á Húsavík

Líf og fjör á setti. Stelpunum tókst vel til við að skapa tíðarandann í upphafi aldarinnar. Hólmfríð…
Líf og fjör á setti. Stelpunum tókst vel til við að skapa tíðarandann í upphafi aldarinnar. Hólmfríður, Marta og Tinna ásamt tökumanni. Myndir/Örlygur Hnefill.

Á unglingastigi í grunnskóla skal nemendum gefinn kostur á að velja námsgreinar og námssvið sem svarar allt að þriðjungi námstímans.

Tilgangurinn með valfrelsi nemenda á unglingsstigi er að laga námið sem mest að þörfum einstaklingsins og gera hverjum og einum kleift að leggja eigin áherslur í námi miðað við áhugasvið og framtíðaráform í samvinnu við foreldra , kennara og námsráðgjafa. Val í námi skal miða að skipulegum undirbúningi fyrir nám í framhaldsskóla og taka mið af undirbúningi fyrir bóknám, starfsmenntun, list- og tækninám. Í Borgarhólsskóla á Húsavík er boðið upp á fjölbreytt úrval af valgreinum.

Þáttagerð varð að stuttmyndagerð

Ein af þeim valgreinum sem boðið var upp á í Borgarhólsskóla á þessu skólaári er námskeið sem í upphafi kallaðist þáttagerð. Nokkrar stelpur í 8. bekk völdu greinina en í hugmyndavinnunni í upphafi námskeiðsins var fljótlega ákveðið að gera stuttmynd.

Fyrir skemmstu var félagsheimili Félags eldri borgara á Húsavík breytt í kvikmyndasett í tengslum við námskeiðið en settið hreyfði við nostalgíu eldri Húsvíkinga en húsnæðinu var breytt í vídeóleigu.

Það var Örlygur Hnefill Örlygsson sem skipulagði og kenndi námskeiðið en hann sagði í samtali við Vikublaðið að hann sé afar ánægður með stelpurnar í námskeiðinu. Þær hafi verið bæði í senn metnaðarfullar og hugmyndaríkar. Það hafi heldur ekki spillt fyrir að fréttastofa RÚV hafi kíkt í heimsókn á tökustað og gert fréttainnslag um námskeiðið þar sem rætt var við stelpurnar.

Metnaðarfullt verkefni

Video 2

Mögulega leynist framtíðar óskarsverðlaunahafi í hópi stelpnanna.

„Ég er að kenna svokallaðar valgreinar í Borgarhólsskóla sem heitir nú reyndar þáttagerð en við hugmyndavinnuna í byrjun námskeiðsins ákváðu stelpurnar að þær vildu frekar gera stuttmynd. Við tókum þetta upp í félagsheimili eldri borgara hér á Húsavík, þessa stuttmynd sem við vorum að gera í áfanganum,“ segir Örlygur. Myndin heitir Tímalaus tenging en atburðarásin flakkar um í tíma á milli ársins 2024 og 2004. Áskorun stelpnanna var því að skapa tíðaranda sem ríkti í upphafi aldarinnar, og ekki annað að sjá en að það hafi tekist með afbrigðum vel.

Örlygur segir að þegar stelpurnar hafi ákveðið að gera stuttmynd í stað þess að vinna í þáttagerð hafi hann leitað í geymslum sínum og fundið þar gamla vhs vídeósafnið sitt, jafnframt hafi hann fundið gamlan tíkallasíma sem notaður var við gerð myndarinnar.

 Bjuggu til hugmynd út frá því sem til var

„Ég sagði í upphafi að það væri langbest þegar verið væri að gera stuttmynd fyrir lítinn sem engan pening að vinna hugmyndina útfrá einhverju sem væri til. Ég á þetta vídeóspólusafn og gamlan tíkalla síma og við byrjuðum eiginlega bara þar. Stelpurnar söfnuðu svo fötum sem passa við tímann og svo höfum við fundið gömul tímarit eins Myndbönd mánaðarins til að gera þetta raunverulegra. Svo fóru þær að föndra gamlar pepsi dósir en það er ákveðin stúdía fólgin í því líka að endurgera svona gamla tíma. Þetta er á mörkum þess að vera smá þjóðfræði líka,“ segir Örlygur og kveðst stoltur af nemendum sínum fyrir afraksturinn.

 Skemmtileg reynsla

Video 1

Viðja Karen í viðtali við RÚV ásamt Tinnu Kristínu Daníelsdóttur.

Viðja Karen Vignisdóttir er ein af ungu kvikmyndagerðarkonunum en hún segir í samtali við Vikublaðið að ferlið hafi verið mjög áhugavert og skemmtilegt. Hápunkturinn hafi klárlega verið helgin sem þau bjuggu til vídeóleiguna.

„Við vorum að gera stuttmynd um stelpu sem flytur til Húsavíkur. Hún finnur gamlan tíkallasíma og hringir í mömmu sína í fortíðinni,“ segir Viðja en þær stelpurnar sömdu handritið sjálfar undir handleiðslu kennara.

Viðja neita því ekki að það fylgir því mikið umstang að búa til svona heim sem þær þekki ekki svo vel sjálfar. Það hafi kallað á rannsóknarvinnu og ófá handtök. „Jú við tókum alla helgina í að gera og græja þetta allt. Við prentuðum m.a. út gömul pepsi lógó og límdum á kókflöskur,“ útskýrir Viðja en mikið var lagt upp úr því að fanga tíðarandann á sem nákvæmastan hátt.

Fjölmiðlavön kvikmyndagerðarkona

Þá segir Viðja að það hafi verið gaman að fá fréttastofu Rúv í heimsókn og hún hafi lent í viðtali sem sýnt var í fréttatíma sjónvarpsins á dögunum. Viðja er reyndar ekki alls óvön athygli fjölmiðlanna en hún komst í heimsfréttirnar um árið þegar Óskarsverðlaunahátíðin kom til Húsavíkur. Þá var Viðja í stúlknakórnum sem söng lagið Heimabærinn minn ásamt Molly Sandén en lagið var tilnefnt til óskarsverðlauna. „Já, það passar, ég kom fram á óskarshátíðinni, það var mjög skemmtilegur tími,“ segir Viðja hæversk og segist vel geta hugsað sér að gera meira í framtíðinni innan kvikmyndagerðar. „Já ég held það, ég er að minnsta kosti mjög mikið fyrir það að leika.“

Stelpurnar á námskeiðinu fengu að sjálfsögðu að prófa sig áfram við hin ýmsu hlutverk í ferlinu en það er að ýmsu að huga við gerð kvikmynda. „Já þetta var mjög gaman og lærdómsríkt. Ég fékk bæði að prófa að taka upp og svo að standa fyrir framan myndavélina og leika. Þetta var mjög gaman alla helgina,“ segir Viðja.

Stóðu fyrir fjáröflun 

Kvikmyndagerð kostar alltaf eitthvað þó vissulega sé hægt að fara langt á hugmyndafluginu en hluti af ferlinu er undirbúningur og áætlanagerð. Eitthvað þurfti að kaupa við gerð myndarinnar en stelpurnar gengu í fyrirtæki og söfnuðu upp í kostnað, það þurfti að kaupa málningu og annað smálegt.

„Já ég vildi að þær fengju að prófa sem flesta snertifleti við kvikmyndagerðina. Þetta er búið að vera áhugavert ferli og ég hef ekki síður haft gaman af því en stelpurnar. Svo vill nú svo skemmtilega til að þetta er sami stelpna hópur og söng með Molly Sandén í Óskarsatriðinu hér um árið. Þær eru búnar að fá flotta reynslu nú þegar,“ útskýrir Örlygur og vill koma á framfæri þakklæti til  Félags eldriborgara á Húsavík fyrir aðstoðina.

„Þau  sýndu okkur mikinn rausnarskap að lána okkur húsið sitt undir vídeóleigu í nokkra daga. Það er ekki sjálfgefið,“ segir Örlygur að lokum.


Athugasemdir

Nýjast