Tillaga um árlega ráðstefnu á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna

Á fundi bæjarráðs Akureyrar í morgun var tekið fyrir erindi frá skjalaverði nefndasviðs Alþingis þar sem óskað er umsagnar um tillögu til þingsályktunar um árlega ráðstefnu á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna. Bæjarráð tekur heilshugar undir ályktunina og telur að hið opinbera ætti að styðja við ráðstefnuhald af þessu tagi  með öflugum hætti.  

Bæjarráð bendir jafnframt á að Akureyri sé miðstöð norðurslóðasamstarfs á Íslandi og tvær hinar fyrri ráðstefnur hafi tekist afar vel og mikilvægt að renna enn styrkari stoðum undir þátttöku landsins í heimskautarannsóknum. Flutningsmenn tillögunnar eru alþingismennirnir Höskuldur Þórhallsson, Björn Valur Gíslason, Þuríður Backman, Kristján Þór Júlíusson, Tryggvi Þór Herbertsson, Birkir Jón Jónsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Jónína Rós Guðmundsdóttir. Lagt er til að Alþingi álykti að fela utanríkisráðuneyti og umhverfisráðuneyti að vinna ásamt Háskólanum á Akureyri að undirbúningi árlegrar ráðstefnu á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna. Jafnframt verði leitað alþjóðlegs samstarfs og stuðnings við verkefnið.

Í greinargerð með tillögunni segir:

Í september 2008 var í fyrsta sinn haldið alþjóðlegt þing á Akureyri um lögfræðileg málefni heimskautasvæðanna (Looking Beyond the International Polar Year). Háskólinn á Akureyri stóð fyrir ráðstefnunni og var Háskóli Sameinuðu þjóðanna í Tókýó meðal þeirra sem tóku þátt í undirbúningnum. Ráðstefnunni var ætlað að vera upphafið að árlegu ráðstefnuhaldi með yfirskriftinni „The Polar Law Symposium". Þingið sátu helstu sérfræðingar á sviði heimskautaréttar og vakti ráðstefnan athygli víða um heim.
Í ávarpi sínu í upphafi þings sagði dr. Bakary Kante, yfirmaður laga- og sáttmáladeildar Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP), að hann sæi fyrir sér að Akureyri yrði eins konar Davos umhverfismála og mundi hann leggja sitt af mörkum til að svo mætti verða. Dr. Kante sagði árlega ráðstefnu á Akureyri m.a. geta snúist um fjölþjóðlega umhverfissáttmála, hvernig þeir gætu verndað heimskautasvæðin, leyst vandamál og ógnir sem við er að glíma og á hvern hátt þeir gætu vísað leiðina við stjórn á umhverfismálum á heimskautasvæðunum þar sem allir jarðarbúar eiga verulegra hagsmuna að gæta. Háskóli Sameinuðu þjóðanna hefur gefið út skýrslu um ráðstefnuna og er þar helstu niðurstöðum þingsins lýst.
 Í september 2009 var haldin önnur alþjóðleg ráðstefna undir yfirskriftinni The Polar Law Symposium. Í nóvember kom út fyrsta bindi árbókar heimskautaréttarins (The Yearbook of Polar Law, Martinus Nijhoff Publishers, Leiden - Boston 2009). Þar birtust flestir fyrirlestrarnir sem fluttir voru á ráðstefnunni árið áður (Looking Beyond the International Polar Year).
Þegar er hafinn undirbúningur að þriðju alþjóðlegu ráðstefnunni um málefni heimskautaréttarins undir yfirskriftinni The Polar Law Symposium sem ætlunin er að halda 9.- 11. september 2010. Ráðstefnuhaldið hefur frá upphafi tengst meistaraprófsnámi í heimskautarétti við Háskólann á Akureyri en það hófst haustið 2008. Eins og ljóst má vera af áðurgreindu er mikilvægt að fylgja þessu framtaki eftir og missa ekki það frumkvæði sem hefur verið staðfest með tveimur fyrstu alþjóðaráðstefnunum á sviði heimskautaréttar. Þannig má treysta Akureyri í sessi sem vettvang á heimsvísu í umræðunni um stöðu heimskautasvæðanna.

Nýjast