Verkmenntaskólanum á Akureyri hefur verið boðið að vera með í verkefni sem tækniskóli í Stavanger í Noregi heldur utan um. Verkefnið snýst um að undirbúa nám í sambandi við olíuleit í framhaldsskólum á Íslandi (VMA), Færeyjum og Grænlandi. Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA segir verkefnið á algjöru frumstigi, búið sé að halda einn símafund og stefnt að því að hittast í Noregi í apríl. Á þeim fundi yrði gengið frá styrkumsókn til að verkefnið nái fram að ganga. Þetta eru fyrstu skref í því að móta nám innan þessa geira í löndunum þremur. Í sambandi við fjármögnun þá er fyrsta skerf að komast á fundinn í apríl og er verið að leita styrkja í þá ferð sem líklega tveir starfsmenn frá skólanum fara í. Ef af náminu verður þá mun það verða í samvinnu við menntamálaráðuneytið eins og annað nám á framhaldsskólastigi en einnig í samvinnu við fyrirtæki og atvinnulíf á svæðinu.
Sigríður segir að sé horft enn lengra til framtíðar þá þurfi að vera til staðar öflug endurmenntun fyrir starfsfólk í olíuvinnslu og skólinn mun þá líklega taka þátt í þeirri endurmenntun í samvinnu við þau fyrirtæki sem vinna að olíuleit og vinnslu. Við erum að renna blint í sjóinn því þekking á þessu sviði er takmörkuð á Íslandi. Miðað við fréttir af olíuleit á Drekasvæðinu þá gætum við vaknað upp við það að hafa ekki starfsfólk sem gæti unnið innan þessa geira. Við getum ekki svarað á þessu stigi hvernig þetta nám liti út né hvenær við gætum mögulega farið að kenna það. Við höfum þekkingu í sambandi við málmiðngreinar og vél- og tækninám og sjáum við þetta nám tengjast inn á þau svið. Sérþekkingu á öryggismálum er tengjast olíuleit höfum við litla hérlendis en í náminu í Stavanger er mikil áhersla á öryggismál enda ekkert grín ef olía fer að leka á fiskimiðum okkar, segir Sigríður.
Hún ítrekar að málið sé algjöru frumstigi. En okkur rennur blóðið til skyldunnar að bregðast við því ef olíuvinnsla fer af stað við Ísland þá reikna ég með því að við viljum sjálf getað unnið störfin sem fylgja þessu tækifæri. Ég held að við gerum okkur ekki grein fyrir því hvað það myndi þýða fyrir okkur ef það verður unnin olía við Ísland og þetta er nær okkur í tíma en við gerum okkur grein fyrir. Þá verðum við að hafa menntað og hæft fólk til að koma að vinnslunni.
Sigríður segir fyrsta skrefið að móta nám á framhaldsskólastigi en nemendur í 10. bekk eru að huga að umsóknum í framhaldsskóla á þessum tímapunkti. Hún beinir því til þeirra og foreldra þeirra að huga vel af því hvar hægt sé að mennta sig innan tæknigreina hvort sem það er hér á Eyjafjarðarsvæðinu eða annarsstaðar á landinu. Atvinnutækifærin til framtíðar eru innan iðn- og tæknigreina ásamt því að námið er mjög góður grunnur fyrir allt tækninám á háskólastigi, segir Sigríður.