„Þyrnum stráð ganga á sviði dægrastyttingar“

Nýja bíó  og torgið á Akureyri.
Nýja bíó og torgið á Akureyri.

Ingólfur Sverrisson  skrifar    

Eyrarpúki

Eftir fyrstu bíóferð mína með Herði bróður, sem sagt hefur verið frá á þessum vettvangi, hófst þyrnum stráð ganga á sviði dægrastyttingar vegna þess að við sem komum frá barnmörgum heimilum fengum sjaldan peninga til að fara í bíó. Frekar en að gefast upp stóð ykkar einlægur stundum við dyrnar í Nýja bíó og hallaði sér að dyrastafnum þar sem „Stjáni í bíó” reif af miðum þeirra sem höfðu ráð á að kaupa þá.  Sem ég stóð þarna gafst öðru hvoru tækifæri til að kíkja löngunaraugum inn í salinn, jafnvel eftir að búið var að slökkva ljósin þar og hreyfimyndirnar komnar í gang á tjaldinu hvíta. Að lokum stóðum við Stjáni einir eftir við innganginn og sögðum ekki orð. Oftast lauk þráteflinu með því að hann opnaði dyrnar, greip í öxl mér, ýtti mér inn og ég kominn í bíó! Síðan leit ég á Stjána sem göfugmenni og einn besta son Akureyrar fyrr og síðar.   

Á þessum tímum var enginn texti við bíómyndirnar og þurftu því flestir að kaupa „prógramm” í miðasölunni þar sem söguþráðurinn var rakinn og með  því opnaður möguleiki á að skilja eitthvað af því sem fram fór á hinu hvíta tjaldi. Hinir sem kunnu eitthvað í útlensku lögðu sig jafnan fram um að hlægja á réttum stöðum og það svo hátt að ekki færi fram hjá nokkrum manni í salnum að þeir væru vel að sér í viðkomandi tungumáli! Við það jókst hróður þeirra til muna.

Við krakkarnir, sem kunnum ekkert í útlensku og urðum að bíða eftir að masinu í fólkinu á bíómyndunum linnti, fórum þá gjarnan að ræða saman um okkar áhugamál og hnoðast hvert í öðru til að lífga upp á samkvæmið. Sérstaklega þótti okkur strákunum leiðinlegt þegar fólkið á tjaldinu var að kyssast og láta vel hvert að öðru enda töldum við það fullkomlega tilgangslausa athöfn og tímaeyðslu frá alvöru hasar.  Einn okkar orðaði það svona:  „Ótrúlega leiðinlegt þegar fólkið er alltaf sjúga magasýrurnar hvert upp úr öðru.” Ekki var rómantíkin kominn lengra hjá okkur strákunum í þá daga.  

Því meiri tíma sem fólkið á hvíta tjaldinu eyddi í þá þarfleysu að kyssast eða tala saman varð það til þess að óróinn jókst hjá okkur í sætunum og þróaðist stundum upp í töluverðan hávaða og tilfæringar sem gátu borist út á gólf og upp að senunni. Þegar kossum og masi slotaði loks á hvíta tjaldinu settumst við öll með það sama hver í sitt sæti steinþegjandi og horfðum opinmynnt í taumlausri aðdáun á Tarzan apabróður svífa milli trjánna, Roy Rogers á færleiknum Trigger út um víðan völl eða Lone Ranger með grímuna dularfullu að vega mann og annan. Hvílíkar hetjur og hvílík afrek sem þessi goð okkar frömdu fyrirhafnarlaust og af svo mikilli íþrótt að við stóðum á öndinni af hrifningu. Við þurftum ekkert prógramm til að átta okkur á því hvað var að gerast; allt var deginum ljósara og óskiljanleg tungumál skiptu nákvæmlega engu máli.  Aðeins hetjudáðir átrúnaðargoða okkar sem þurftu engra útskýringa við enda voru þau af öðrum heimi.

Ingólfur Sverrisson      


Athugasemdir

Nýjast