Þurrt loft í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri veldur starfsfólki óþægindum og hefur orðið til þess að hljóðfæri skemmast. Í Tónlistarskólanum á Akureyri hafa orðið skemmdir á hljóðfærum sem hlaupa á milljónum króna. Vikudagur fjallaði um málið á síðasta ári og þá var áætlað að kostnaður við skemmdir gætu orðið tugi milljóna innan fárra ára ef ekkert yrði gert.
Mælingar hafa sýnt lágt rakastig víðs vegar í byggingunni og þykir loftið heilsuspillandi. Starfsfólk Tónlistarskólans fór á sínum tíma skriflega fram á bæjaryfirvöld að fundin yrði lausn á þurru lofti í húsnæði skólans. Ástandið hefur hins vegar ekkert lagast eftir því sem Vikudagur kemst næst.
Samkvæmt upplýsingum blaðsins liggja hljóðfæri enn undir skemmdum og er ástandið verst yfir köldustu mánuðina. Nánar er fjallað um málið í prentútgáfu Vikudags.
-þev