Þurfa að bæta við vagni til að bjóða upp á strætóferðir

Ekki er hægt koma strætóferðum inn í leiðarkerfið með núverandi fjölda strætisvagna.
Ekki er hægt koma strætóferðum inn í leiðarkerfið með núverandi fjölda strætisvagna.

Til þess að Akureyrarbær geti boðið upp á strætisvagnaferðir til og frá Akureyrarflugvelli þarf að bæta við vagni. Ekki er unnt að bjóða upp á slíkar ferðir við núverandi fjölda strætó, sem eru alls fjórir. Áður en farið verður í að bæta þjónustuna þarf að greina þörfina fyrir strætisvagn út á flugvöll. Þetta segir Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar.

Eins og fjallað var um í síðasta blaði er það mat Ara Fossdals, stöðvarstjóra Air Iceland Connect á Akureyrarflugvelli, að bæta þurfi almenningssamgöngur um flugvöllinn. Eins og staðan er í dag eiga farþegar einungis kost á því að taka leigubíl. Sagði Ari að fyrir öflugan flugvöll verði samgöngur að vera í lagi og er eitt af því sem geri flugvöll frambærilegan. Þá hafa fulltrúar í ferðaþjónustu hér á landi sem og erlendar ferðaskrifstofur lýst yfir áhyggjum af samgönguleysi um flugvöllinn.

Halla Björk segir að almenningssamgöngur um flugvöllinn hafi verið í skoðun síðustu ár en ekki hafi tekist að koma ferðum inn í leiðarkerfið með núverandi fjölda strætóa. „Við erum hins vegar að vinna hörðum höndum í að auka starfsemi flugvallarins og bættar samgöngur verða að haldast í hendur við þá vinnu,“ segir Halla Björk.

„Við þurfum að greina þörfina og hversu margir myndu nýta sér þjónustuna. Það er alveg ljóst að með frekari uppbyggingu flugvallarins verður meiri þörf á almenningssamgöngum,“ segir Halla Björk. Hún segir ennfremur að þegar kerfinu var breytt síðast voru hinir ýmsu möguleikar kostnaðargreindir og á þeim tíma þótti ekki forsvaranlegt að leggja út í þann kostnað. Það voru allt frá 40-90 milljónir, eftir því hvort verið var að tala um hluta úr ári eða ekki og eins mismunandi tíðni ferða.

Nýjast