Aðalfundurinn skorar á stjórnvöld að taka höndum saman með aðilum vinnumarkaðarins um að snúa þessari óheillaþróun við og ráðast í mannaflfrekar framkvæmdir eins og margsinnis hefur verið lofað. Aðalfundurinn skorar einnig á stjórnvöld og atvinnurekendasamtökin um að taka höndum saman með verkalýðshreyfingunni um að móta reglur um útboð, framkvæmd og eftirfylgni þeirra. Það er erfitt að sjá hverra hagsmuna aðilar eru að gæta þegar tilboð eru tekin sem eru langt frá kostnaðaráætlun. Það er vitað að eina svigrúm þeirra sem gefa slík tilboð eru vinnulaun starfsmanna. Starfsmenn eru ýmist píndir í að taka laun undir lágmarkstaxta eða gerðir að undirverktökum. Opinberir aðilar verða að setja sér vinnureglur til að tryggja að þeir sem bjóða tugum prósenta undir kostnaðaráætlun verkkaupa sýni fram á með óyggjandi hætti hvernig þeir geti staðið við tilboðið án þess að það bitni á starfsmönnum, birgjum, undirverktökum eða opinberum gjöldum.
Þá lýsir fundurinn áhyggjum sínum á lækkandi meðalaldri fyrirtækja í bygginga- og mannvirkjagerð. Það er ólíðandi að sömu aðilar og nýlega hafa keyrt fyrirtæki sín í gjaldþrot geti stofnað ný fyrirtæki og tekið þátt í opinberum útboðum án þess að grennslast sé fyrir um fortíð þeirra. Aðalfundurinn gerir þá kröfu til þeirra aðila sem annast opinber útboð að haldin sé skrá yfir forsvarsmenn fyrirtækja sem tekið hafa þátt í opinberum útboðum til að tryggja að ekki sé verið að taka tilboðum „kennitöluflakkara", segir ennfremur í ályktuninni.