Við erum ótrúlega stolt af þessum fjölda listamanna sem hafa heimsótt okkur í vetur og til að setja þetta í eitthvað samhengi má segja að þetta samsvari því að allir íbúar Norðurþings, Húsavíkur og nágrennis hafi stigið á stokk í Hofi, segir Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir framkvæmdastjóri Hofs.
Samkvæmt bókhaldi Hofs komu um þrjú þúsund listamenn úr öllum listgreinum fram í Hofi í vetur.
Ingibjörg Ösp segir erfitt að segja nákvæmlega til um fjölda gesta, en þeir séu örugglega vel á annað hundruð þúsund.
Hér hafa allar helstu popp- og rokkstjörnur þjóðarinnar stigið á stokk í vetur auk Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og frábærra óperusöngvara svo eitthvað sé nefnt. Einnig hafa kórar og sönghópar af öllu landinu sungið hjá okkur í vetur. Við erum líka afskaplega stolt af því glæsilega framboði leiksýninga sem við höfum boðið upp á í vetur.
Hallalaus rekstur og sóknarfæri í ráðstefnuhaldi
Ingibjörg segir að á þeim þremur árum sem húsið hefur starfað hafi Hof sannað tilverurétt sinn. Það hefur verið stöðugleiki í rekstrinum frá upphafi og nú þegar uppgjör þriðja starfsársins nálgast er ljóst að reksturinn gengur ennþá mjög vel og það sýnir sig enn og aftur að Akureyringar og í raun landsmenn allir kunna að meta starfsemina í Hofi.
Nánar um þetta í prentútgáfu Vikudags
karleskil@vikudagur.is