Þrjú stórverkefni í útboð

Þrjár stórar byggingaframkvæmdir á Akureyri hafa verið boðnar út á síðustu dögum og er ljóst að líflegt verður í byggingariðnaði á Akureyri á næstu misserum. Um er að ræða nýja byggingu Glerártorgs á Gleráreyrum, vinnu við fangelsið á Akureyri og stækkun þess og byggingu menningarhússins Hofs. Leiða má að því líkur að þetta séu verk upp á um 2,5 milljarða króna.

„Ég lít svo á að þetta sé góður tími fyrir byggingariðnaðinn að fá þessi verk. Þótt ekki sé neinn samdráttur merkjanlegur í byggingu íbúðarhúsa hef ég orðið var við það í samtölum mínum við menn að það er eins og það sé að myndast tappi hvað varðar sölu íbúðarhúsnæðis þannig að það kann að vera að menn fari að draga saman seglin á þeim vettvangi," segir Guðmundur Ómar Guðmundsson formaður Félags byggingarmanna í Eyjafirði í samtali við Vikudag.

Verklok á Glertorgi eiga að vera 31. október á þessu ári og á að skila húsinu, sem verður um 8 þúsund fermetrar að grunnfleti og 10 þúsund fermetrar alls, tilbúnu að utan með bílastæðum en tilbúnu fyrir innréttingar í verslunarrýmum innandyra. Verklok fangelsisbyggingarinnar eru í júní á næsta ári og menningarhúsið Hof á að taka í notkun á vormánuðum árið 2009.

Nýjast