Þrisvar sinnum stærri framkvæmd til skoðunar við Hafnarstræti 98

Nokkur umræða hefur verið um stöðu mála í Hafnarstræti 98, m.a. í greinum sem skrifaðar hafa verið í Vikudag. Húsið er í eigu H98 ehf. en það félag eiga KEA og Saga Capital fjárfestingarbanki saman. Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA skrifar grein sem birtist í Vikudegi nk. fimmtudag, þar sem hann bendir á nokkra þætti sem hafa orðið til þess að verkefnið hefur ekki farið af stað - mitt í kreppunni og hvaða forsendur þurfi að vera til staðar fyrir framkvæmdum.  

Einnig gerir hann grein fyrir stöðu málsins í dag og telur góðar líkur á að framkvæmdir hefjist innan skamms tíma. Þar kemur fram að H98 á byggingarrétt á lóðinni austan við húsið fyrir meira byggingarmagn en sem nemur stærð gamla hússins. Þar er unnið að verkefni sem kallar á verulegar framkvæmdir á allri lóð félagsins, þar sem byggingarréttur félagsins yrði nýttur til fulls. Ef mál þróist með jákvæðum hætti næstu vikur, verði sú framkvæmd rúmlega þrisvar sinnum stærri en upphafleg áform gerðu ráð fyrir, sem hafi mikil áhrif á alla hönnun og undirbúningsvinnu. 

"Hvað KEA varðar, er eðlilegt að láta reyna fyrst á verkefni sem nýta byggingaréttinn til fulls sem og það að slíkt verkefni veitir fleiri höndum vinnu, bæði á byggingartíma og við reksturinn í húsinu í framhaldinu. Nýkynnt miðbæjarskipulag gerir ráð fyrir því að framangreindur byggingaréttur félagsins á baklóð þess falli niður. Þessi mjög svo óvænta skipulagstillaga flýtir ekki fyrir því að hægt verði að ýta því máli hratt áfram en eigendur H98 vænta þess að auðvelt verði að fá tillögunni breytt svo ekki verið tafir á því verkefni sem unnið er að," segir Halldór í grein sinni.

Hann segir ennfremur að nú hilli undir að framkvæmdir við Hafnarstræti 98 hefjist, félagsmenn þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að verkefnið sé að daga uppi. "En grundvallaratriði verður ætíð, þegar ráðist er í svona verkefni af hálfu KEA, að vitneskja sé um undir hvaða starfsemi eða not verður byggt og að verkefnið verði sjálfbært."

Nýjast