Leikurinn var nokkuð jafn í byrjun og var munurinn aldrei meiri en tvö mörk í fyrri hálfleik. Gestirnir voru þó ávallt skrefinu á undan framan af fyrri hálfleik en Akureyri náði að snúa leiknum sér í hag þegar líða fór á leikinn. Varnaleikurinn, sem hafði verið slakur í byrjun, hrökk í gang og heimamenn tóku frumkvæðið og leiddu með tveimur mörkum í hálfleik, 18:16.
Heimamenn skoruðu fyrsta markið í seinni hálfleik og staðan 19:16, en þá kom hins vegar skelfilegur kafli hjá norðanmönnum. FH skoraði fimm mörk í röð og breyttu stöðunni í 21:19 sér í vil og var það vendipunktur í leiknum. Sóknarleikur heimamanna varð slakari því meira sem leið á hálfleikinn og að sama skapi var vörnin hjá FH sterk og Pálmar Pétursson í marki gestanna sem klettur fyrir aftan vörnina. Þetta reyndist norðanmönnum ofviða og þriggja marka tap niðurstaðan, 27:30. FH var einfaldlega betra liðið í kvöld og sigurinn fyllilega verðskuldaður.
Í liði Akureyrar var Oddur Grétarsson markahæstur með 10 mörk og þeir Árni Þór Sigtryggsson, Geir Guðmundsson og Guðmundur Hólmar Helgason skoruðu 3 mörk hver en aðrir minna. Þá varði Hafþór Einarsson 14 skot í marki Akureyrar en Hörður Flóki Ólafsson varði 4 skot.
Markahæstir í liði FH var Bjarni Fritzon með 6 mörk, Ólafur Gústafsson skoraði 5 mörk og Ólafur Guðmundsson 4. Þá varði Pálmar Pétursson 18 skot í marki gestanna og Daníel Andrésson varði 2 skot.
Akureyri þarf því enn um sinn að bíða eftir fyrstu sigurleiknum í deildinni. Eftir fyrstu þrjár umferðirnar eru norðanmenn aðeins með eitt stig í næstneðsta sæti deildarinnar. FH er hinsvegar á toppnum með 5 stig. Næsti leikur Akureyrar er útileikur gegn Gróttu, fimmtudaginn 5. nóvember.