Þriggja ára stúdentspróf í VMA
Frá og með næsta skólaári býður Verkmenntaskólinn á Akureyri upp á þriggja ára nám til stúdentsprófs. Hinar nýju þriggja ára stúdentsbrautir hafa verið skipulagðar með hliðsjón af innritunarkröfum háskólanna. Þetta kemur fram á vef skólans. Breytingar á iðn- og tækninámi eru einnig á döfinni en þær eru skemmra á veg komnar. Lengi hefur verið unnið að nýrri námsskrá og námstilhögun og hefur markvisst verið unnið að málinu í VMA á þessu skólaári með það að markmiði að hefja kennslu samkvæmt nýrri námsskrá á nýjum og breyttum námsbrautum haustið 2015.
Alla jafna þarf að ljúka kjarnagreinum grunnskóla með fullnægjandi árangri til að komast í iðnnám, starfsnám og námsbrautir til stúdentsprófs. Benedikt Barðason, áfangastjóri í VMA, segir á vef skólans að þær breytingar á námi í VMA sem nú er verið að kynna vegna næsta skólaárs séu þær mestu sem hafa orðið frá því að skólinn var settur á stofn fyrir röskum þrjátíu árum.