27. apríl, 2007 - 09:09
Fréttir
Karlmaður á fimmtugsaldri var í gær dæmdur í Héraðsdómi Norðurlands eystra í þriggja ára fangelsi fyrir stórfellda líkamsárás á fyrrum unnustu sína og einnig á karlmann, en maðurinn var sýknaður af ákærum um manndrápstilraunir. Maðurinn hellti bensíni yfir fyrrum unnustu sína í húsi á Kópaskeri, en hætti við að kveikja í henni þar sem hann hafði ekki eldfæri. Síðar, á Húsavík, stakk hann konuna með hníf í brjóstið svo hún hlaut 2 cm stungusár aftan á brjóstkassa. Eftir að eldur kom upp í húsinu stakk hann karlmann sem var á staðnum í síðuna og kastaði einhverjum hlut, púða eða einhverju, í konuna þannig að hún hlaut 1.-3. stigs brunasár á öxlum, hálsi, enni, hnakka og herðum. Maðurinn var ekki dæmdur fyrir tilraunir til manndráps en sem fyrr sagði hlaut hann þriggja ára fangelsi, dæmdur til að greiða konunni 500 þúsund og tæpar 2 milljónir í málskostnað.