Þrettán sjúkraflug í síðustu viku

Síðasta vika byrjaði kröftulega í sjúkraflugi, en um kl. 08:00 kom fyrsta beiðnin um F-1 (hæsti forgangur) flug frá Akureyri til Reykjavíkur. Á meðan á því flugi stóð var óskað eftir F-1 fugi frá Egilsstöðum til Reykjavíkur. Ekki var liðin langur tími er beiðni kom um annað F-1 flug frá Norðfirði til Reykjavíkur. Í öllum tilfellunum var um alvarleg hjartatilfelli að ræða.  

Á meðan fyrsta flug var klárað var óskað eftir því að ekið væri með þann sem á Norðfirði var til Egilsstaða og síðan voru þessir tveir sjúklingar sóttir þangað og þeir fluttir til Reykjavíkur. Þegar tveir sjúklingar eru fluttir þá eru hafðir tveir sjúkraflutningamenn um borð og því var leitað til SHS (Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins) með einn mann til viðbótar í flugið. Allt gekk vel í þessum flutningum og sést vel hversu mikilvægt það að Reykjavíkurflugvöllur sé til staðar svo að sjúklingar komist í hendur sérfræðinga á sem skemmstum tíma, segir á heimasíðu Slökkviliðs Akureyrar.

Vikan endaði síðan í því að farin höfðu verið 13 sjúkraflug og var rúmlega helmingur þeirra forgangur F-1 og F-2.  Heildarfjöldi sjúkrafluga á árinu er komin í 95 flug sem er fjölgun frá fyrra ári.

Nýjast