Samkvæmt upplýsingum frá Hermanni Jóni Tómassyni bæjarstjóra, stendur Slökkvilið Akureyrar frammi fyrir breyttu umhverfi í tengslum við núverandi efnahagsástand og þá fjármuni sem til liðsins eru áætlaðir líkt og til annarra stofnana bæjarins. Ljóst sé líka að skerðing verði á greiðslum frá ríki til slökkviliðsins í tengslum við samning um sjúkraflutninga.
Samkvæmt upplýsingum Vikudags munu þeir starfsmenn sem sagt var upp, lækka umtalsvert í launum, taki þeir við öðrum stöðum hjá slökkviliðinu. Hermann Jón segir að við skipulagsbreytingarnar þurfi að hafa í huga breyttan vinnutíma tveggja ofangreindra starfsmanna, þiggi þeir nýju störfin. Í þeim komi til greiðslu vaktaálags og fleiri þátta og því sé alveg óvíst að þeir lækki í heildarlaunum við breytinguna.
Framkvæmdaráð samþykkti nýlega breytingar á skipulagi slökkviliðsins sem miða að því að styrkja mannafla á dagvaktinni til að sinna þeim verkefnum sem upp á koma daglega svo sem sjúkraflutninga, sjúkraflug, brunaútköll og fleira og færa inn á dagvaktir verkefni sem eru nú unnin í yfirvinnu. Bæjarstjóri segir að þessi breyting styrki slökkviliðið til að sinna verkefnum sem upp koma á hverjum tíma og jafnframt dragi verulega úr útköllum slökkviliðsmanna utan vakta. Breyting þessi auki í leiðinni styrk slökkviliðsins til að bregðast við útköllum á dagvinnutíma.