Þorláksmessugufan ómissandi
Hjónin Tryggvi Gunnarsson og Auður Þorsteinsdóttir hafa komið sér upp myndarlegu gufubaðshúsi í garðinum hjá sér á Akureyri. Þau byggðu húsið í sameiningu og tók það tvö ár. Gufubaðið var tekið í notkun þann 1. desember árið 2000 og síðan þá hefur myndast sú hefð að fara í Þorláksmessugufu. Þetta byrjaði þannig að þegar við byggðum húsið þurfti ég að fá leyfi frá öllum í raðhúsinu. Ég sagði við nágrannana að skrifa bara undir og ég myndi bjóða þeim í gufu á Þorláksmessu, segir Tryggvi í léttum dúr.
Hann segir Þorláksmessugufuna ómissandi hluta af jólunum. Jólin koma með jólagufunni. Við hittumst nokkrir karlar og allur gangur á því hversu margir koma. Við förum í gufu fljótlega eftir kvöldmat og þeir síðustu fara á milli 2-3 um nóttina. Þá eru þeir vel soðnir, segir hann.
Nánar er rætt við Tryggva í nýjustu prentútgáfu Vikudags.